Erlent

Brexitmálaráðherrann segir af sér

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
David Davis leiddi samningaviðræður Bretlands við ESB vegna Brexit.
David Davis leiddi samningaviðræður Bretlands við ESB vegna Brexit. Vísir/Getty
David Davis hefur sagt af sér embætti sem Brexitmálaráðherra Bretlands. Töluverð spenna hefur verið á milli ráðherra í ríkisstjórn Theresu May og þingmanna Íhaldsflokksins eftir að hún setti fram sína sýna á það hvernig framtíðarsambandi Bretlands við Evrópusambandið yrði háttað eftir Brexit. Sky News greinir frá.

Í síðustu viku náði ríkisstjórnin samkomulag um að samið yrði um um fríverslun með iðnaðar- og landbúnaðarvörur á milli Bretlands og ESB. Verður samningurinn byggður á því sem kallað er „sameiginlegt regluverk“ í breskum fjölmiðlum.

Samkomulagið náðist á maraþonfundi hinna 26 ráðherra ríkisstjórnarinnar sem boðað var til þess að leysa ágreining um hvernig sambandi Bretlands og ESB yrði háttað eftir Brexit.

Hörðustu stuðningsmenn Brexit innan Íhaldsflokksins voru þó ekki sáttir með samkomulagið og sagði leiðtogi hóps þingmanna sem teljast til harðra stuðningsmanna Brexit að mögulegt væri að samkomulagið væri verra en að Bretland myndi yfirgefa ESB án samkomulags um framtíðarsamband ríkisins við ríkjasambandið.

Davis var skipaður Brexitmálaráðherra árið 2016 og var helsti samningamaður Bretlands í Brexit-viðræðum við ESB. Sem stendur hefur ekkert verið gefið upp um af hverju Davis ákvað að segja af sér embætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×