Sigur Íslands á Litháen, 34-31, í seinni leik liðanna um sæti á HM 2019 þýðir að landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson er á leið á sitt 22. stórmót á ferlinum í janúar á næsta ári.
Fyrsta stórmótið sem Guðmundur fór á var B-keppnin í Hollandi 1983 en þá var hann 22 ára gamall leikmaður Íslandsmeistara Víkings. Guðmundur fór á fimm stórmót til viðbótar sem leikmaður íslenska landsliðsins og var m.a. í liðinu sem vann B-keppnina í Frakklandi 1989.
Guðmundur tók við íslenska landsliðinu 2001 og ári seinna stýrði hann því til 4. sætis á EM í Svíþjóð. Guðmundur stýrði Íslandi á þremur stórmótum til viðbótar áður en hann hætti eftir Ólympíuleikana í Aþenu 2004.
Guðmundur fór á HM 2007 sem aðstoðarþjálfari Alfreðs Gíslasonar. Hann tók svo nokkuð óvænt við íslenska liðinu á ný vorið 2008. Þá hófst mesta blómaskeið í sögu þess. Ísland vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlauna á EM í Austurríki tveimur árum síðar. Guðmundur stýrði Íslandi einnig á HM 2011, EM 2012 og Ólympíuleikunum 2012.
Árið 2014 tók Guðmundur við danska landsliðinu af Ulrik Wilbæk. Hann stýrði Dönum á tveimur heimsmeistaramótum, einu Evrópumóti og svo á Ólympíuleikunum 2016 í Ríó þar sem danska liðið stóð uppi sem sigurvegari.
Guðmundur hætti með danska liðið eftir HM 2017 og tók því næst við Barein. Hann stýrði Bareinum á Asíuleikunum 2018 þar sem liðið vann til silfurverðlauna og tryggði sér í leiðinni sæti á HM 2019. Guðmundur afrekaði það að koma tveimur liðum á HM á næsta ári sem fer fram í Danmörku og Þýskalandi. Dregið verður í riðla í Kaupmannahöfn 25. júní næstkomandi.
