Skoðun

Smálán eru vaxandi vandamál

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Embætti umboðsmanns skuldara greindi frá því á dögunum að fjöldi þeirra sem sóttu um aðstoð hjá embættinu hefur verið vaxandi frá árinu 2015. Greining á þessari aukningu leiðir í ljós að mest fjölgun er meðal umsækjenda á aldrinum 18-29 ára en um 70% þeirra hafa tekið smálán.

Alla jafna er um að ræða tekjulága einstaklinga, á leigumarkaði, með neysluskuldir sem oft eru með óhagstæðum lánaskilmálum. Markaðssetning smálána hefur verið áberandi undanfarin misseri og virðist einkum beint að þessum aldurshópi. Embættið hefur vakið athygli á því hversu einfalt er að nálgast smálán en nægilegt er að einstaklingur skrái nafn, kennitölu og bankareikning á vefsvæði og þá getur hann fengið lán sé hann ekki á vanskilaskrá.

Þessi staða er alvarleg og leggur embættið áherslu á að með auknu aðgengi að lánsfé fyrir þennan hóp er mikilvægt að stuðla að auknu fjármálalæsi og þarf sú fræðsla meðal annars að beinast að þessu tiltekna lánsformi og því hvaða afleiðingar það getur haft fyrir einstaklinginn að nýta sér það.

Embættið fagnar þeirri þörfu umræðu sem skapast hefur undanfarið og ekki síst þeim áhuga sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur sýnt þessu mikilvæga málefni.

Að mati umboðsmanns skuldara er þetta verkefni tvíþætt. Til að taka á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir þarf að gera ítarlega könnun á umfangi og starfsemi smálánafyrirtækja hér á landi. Kanna þarf til hvaða aðgerða grípa þarf til að koma böndum á starfsemina t.d. með því að gera hana eftirlitsskylda með sama hætti og fjármálafyrirtæki.

Þá er ljóst að efla þarf fjármálalæsi og er brýnt að kennsla um fjármál verði hluti af almennu námi á grunn- og framhaldsskólastigi hér á landi. Embætti umboðsmanns skuldara vill leita allra leiða til að forða þeim sem sækja um þessi lán frá því að lenda í greiðsluerfiðleikum og er embættið tilbúið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða.

Höfundur er umboðsmaður skuldara




Skoðun

Sjá meira


×