Netflix tilkynnti á Twitter í gær að tökum á sjöttu þáttaröð House of Cards hefði verið hætt um óákveðinn tíma. Var gefin sú skýring að þetta gæfi framleiðslufyrirtækjum þáttanna tækifæri til þess að fara yfir stöðuna. Framleiðendurnir eru núna á tökustað þessa vikuna að ræða við tökulið og leikara. Verða nánari upplýsingar tilkynntar síðar.
Production on the final season of House of Cards is suspended until further notice.
— Netflix US (@netflix) October 31, 2017
MRC og Netflix hafa ákveðið að hætta framleiðslu á sjöttu þáttaröð af House of Cards, þangað til annað kemur í ljós, til að gefa okkur tíma til að fara yfir stöðuna og fara yfir þær áhyggjur sem leikarar og tökulið okkar gætu haft,”
sögðu framleiðslufyrirtækin í sameiginlegri yfirlýsingu sem send var á Deadline. Þessar fréttir koma í kjölfar þess að fyrirtækin tilkynntu á mánudag að ákveðið hefði verið að hætta framleiðslu House of Cards og sjötta þáttaröðin yrði sú síðasta. Það var ákveðið í kjölfar ásakana á hendur aðalleikara þáttanna, Kevin Spacey, um að hafa áreitt fjórtán ára pilt kynferðislega árið 1986.
Síðan ásakanirnar á hendur Spacey komu fram hefur leikarinn verið harðlega gagnrýndur fyrir að beina athyglinni frá ásökununum með því að koma opinberlega út úr skápnum á Twitter.
Tökur hafa nú staðið yfir á sjöttu þáttaröðinni, meðal annars í Baltimore samkvæmt frétt Deadline. Spacey átti þó ekki að vera á tökustað þegar þetta var tilkynnt og hefur hann ekki sent frá sér yfirlýsingu varðandi endalok þáttanna. Þættirnir áttu að vera þrettán talsins og fara í sýningu á Netflix um mitt næsta ár. Það er þó ekki ljóst núna hvort þættirnir verði sýndir eða hvenær.