Viðskipti innlent

Friðrik Þór, Heiðmar og Sveinn Friðrik til SFS

Atli Ísleifsson skrifar
Friðrik Þór Gunnarsson, Heiðmar Guðmundsson og Sveinn Friðrik Sveinsson.
Friðrik Þór Gunnarsson, Heiðmar Guðmundsson og Sveinn Friðrik Sveinsson. SFS
Friðrik Þór Gunnarsson hagfræðingur og Heiðmar Guðmundsson lögmaður hafa verið ráðnir til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá hefur Sveinn Friðrik Sveinsson verðbréfamiðlari verið ráðinn fjármálastjóri SFS.

Þetta kemur fram á heimasíðu SFS.

Friðrik Þór er með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og segir á heimasíðu SFS að Friðrik muni sinna vinnu við hagfræðilegar greiningar á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins, ásamt ýmsu öðru, svo sem við kjaramál og lagafrumvörp. Áður hefur hann starfað á fjármálasviði Skeljungs og er núverandi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. 

Verkefni Heiðmars munu meðal annars lúta að lögfræðilegri ráðgjöf, samningagerð, vinnslu álitsgerða og umsagna, alþjóðlegu samstarfi á sviði vinnuréttarmála tengdum sjávarútvegi og aðstoð við félagsmenn. „Heiðmar er með BA og ML gráðu í lögfræði frá lagadeild Háskólans í Reykjavík og réttindi sem héraðsdómslögmaður. Hann starfaði sem lögmaður hjá CATO lögmönnum frá árinu 2011. Heiðmar hefur nokkra reynslu af sjómannsstörfum, en á sínum yngri árum starfaði hann sem háseti á uppsjávarskipi og einnig á frystitogara,“ segir í heimasíðunni.

Sveinn Friðrik er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið löggildingu í verðbréfaviðskiptum. „Sveinn Friðrik var áður fjármálastjóri hjá Bílanausti. Á árunum  2011-2014 starfaði hann sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar hjá Virðingu. Þar áður sem verðbréfamiðlari hjá Saga fjárfestingabanka, forstöðumaður fjárstýringar hjá Straumi fjárfestingarbanka og forstöðumaður netviðskipta Íslandsbanka. Sveinn Friðrik hefur verið fjallabjörgunarmaður hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu frá árinu 2000,“ segir í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×