Viðskipti innlent

Dís ráðin skrifstofustjóri á velferðarsviði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dís Sigurgeirsdóttir
Dís Sigurgeirsdóttir Mynd/Aðsend
Dís Sigurgeirsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri á skrifstofu sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Staðan var auglýst 23. mars með umsóknarfrest til 16 apríl og sóttu 44 um starfið en sex drógu umsóknir sínar til baka.

Dís útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1999 og með meistarapróf í mannréttindum, LL.M  frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 2005.

Hefur hún starfað síðastliðin sjö ár hjá skrifstofu Efta í Brussel og leitt þar verkefni tengd uppbyggingarsjóði EES. Málaflokkar skrifstofunnar eru innflytjenda- og hælismál, fangelsismál, dómstólar, lögregla og kynbundið ofbeldi. Áður starfaði Dís  sem sendifulltrúi á sviði dóms og innanríkismála hjá sendiráði Íslands í Brussel árin  2008 til 2010 og sem sérfræðingur í dóms-og kirkjumálaráðuneytinu árin 2000 til 2008.

Í tengslum við störf sín hefur Dís setið í fjölmörgum nefndum sem tengjast starfsviði hennar, bæði innanlands sem og erlendis, svo sem um mansal og kynbundið ofbeldi, réttindi samkynhneigðra, , þróun mannréttinda og menntun fanga.  Þá var hún formaður tilraunaverkefnis um sáttamiðlun í  sakamálum sem innleiddi sáttamiðlun í íslenskan rétt.

Það var ráðningarstofan Hagvangur sem annaðist úrvinnslu umsókna í samráði við velferðarsvið, að því er kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×