Loftvarnirnar vekja samkvæmt Reuters fréttaveitunni spurningar um hvernig Bandaríkin munu bregðast við. Bandaríkin hafa heitið því að standa í hárinu á Kína og tryggja frjálsar siglingar um svæðið.

Yfirvöld í Kína hafa byggt upp minnst sjö eyjur og sker í Suður-Kínahafi og byggt á þeim flugvelli og jafnvel flotastöðvar. Brúnei, Malasía, Filippseyjar, Taívan og Víetnam gera einnig tilkall til hluta Suður-Kínahafs og hafsvæðið sem Kína hefur eignað sér nær inn á þeirra svæði.
Að mestu snýr deilan um uppbyggingu eyja í Spratly-eyjaklasanum.
Um þriðjungur allra skipaflutninga fer um hafið og þar má finna góð fiskimið og náttúruauðlindir.
Kínverjar segjast frá fornu fari hafa farið með yfirráð á eyjum á þessu hafsvæði, en alþjóðagerðardómurinn í Haag segir ekkert til í því.
Kínversk stjórnvöld hafa sagt að dómstóllinn hafi enga lögsögu í málinu og ætla að virða niðurstöðuna einskis. Niðurstaðan er bindandi en dómstóllinn hefur ekkert vald til að fylgja henni eftir.
Hér má sjá útskýringarmyndband Vox um Suður-Kínahaf.
Fyrir áramót bárust fregnir af nýjum loftvörnum Kínverja í Suður-Kínahafi, en þær voru einnig sagðar vera til þess að skjóta niður eldflaugar. Nýju loftvarnirnar drífa þó lengra.
China placing big guns on disputed reefs, according to satellite pics seen by the Asia Maritime Transparency Intiative pic.twitter.com/oF56v0sg5Q
— AFP news agency (@AFP) December 15, 2016
Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagði Reuters að hann væri meðvitaður um þessar fregnir, en vildi ekki segja hvort til standi að koma loftvarnarskeytum fyrir í nýju byggingunum. Hann neitaði því einnig ekki.
„Það að Kína standi í eðlilegri uppbyggingu innan eigin svæðis, þar með talið byggingu viðeigandi varnarvirkja, er réttur ríkisins samkvæmt alþjóðalögum,“ sagði Geng Shuang.
Heimildarmaður Reuters úr leyniþjónustugeira Bandaríkjanna segir þó að Bandaríkjunum muni ekki stafa ógn af umræddum loftvarnarskeytum vegna þess hvar þær væru staddar og hve sýnilegar þær væru.