Morðið náðist á öryggismyndavélar flugvallarins. Kim Jong Nam er talinn hafa verið myrtur af útsendurum Norður-Kóreu.
VX-taugaeitrið er talið eitraðasta taugaeitur sem þekkist og er skilgreint af Sameinuðu þjóðunum sem gereyðingarvopn. Yfirvöld í Malasíu rannsaka nú hvort að eitrið hafi verið flutt til landsins eða framleitt þar.
Sérfræðingar verða fengnir til að afeitra flugvöllinn þar sem VX-taugaeitrið eyðist ekki á skömmum tíma. Leifar af því geta verið til staðar um langt skeið.
VX, the banned nerve agent used to kill Kim Jong-Nam, is one of the deadliest chemical agents ever manufactured https://t.co/c19E3R7RL9 pic.twitter.com/dflpfgHI99
— AFP news agency (@AFP) February 24, 2017
Yfirvöld í Norður-Kóreu eru talin sitja á stærstu efnavopnabirgðum heimsins og er eitt af sex ríkjum sem hafa ekki skrifað undir samning Sameinuðu þjóðanna um efnavopn. Hann varðar bann við þróun, framleiðslu söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra.
Sérfræðingur sem Guardian ræddi við segir ólíklegt að morðingjarnir hefðu úðað hreinu VX-taugaeitri framan í Kim Jong Nam, þar sem gufurnar hefðu einnig gengið af þeim dauðum. Líklegra væri að notast hefði verið við tvo vökva sem myndi VX þegar þeir blandast saman.
Sjá einnig: Uppreisnargjarni glaumgosinn Kim Jong-nam
Yfirvöld í Norður-Kóreu eru reið yfir því að krufning hafi verið framkvæmd á líki Kim Jong Nam og það hafi ekki strax verið flutt til sendiráðs Norður-Kóreu þar sem til stóð að brenna það.
Í frétt á ríkismiðli Norður-Kóreu segir að yfirvöld landsins hafi staðfest að „ríkisborgari Norður-Kóreu“, eins og hann er kallaður, hafi dáið vegna hjartaáfalls. Þá hafi íhaldssamir fréttamiðlar í Suður-Kóreu birt falsfrétt um að eitrað hefði verið fyrir manninum.
„Norður-Kórea mun ekki leyfa neinum að skaða ímynd þessa virðulega og sjálfstæða ríkis og kjarnorkuveldis og mun komast að hinu sanna í þessu máli. Ríkið mun fylgjast með viðhorfi Malasíu í framtíðinni,“ segir í fréttinni.