Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt tilnefningu Scott Pruitt í embætti forstjóra Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna en það var Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sem tilnefndi Pruitt í embættið.
Pruitt hefur í gegnum tíðina gagnrýnt stofnunina harðlega en hann er þekktur fyrir að hafa efast um þær sannanir sem liggja fyrir um loftlagsbreytingar af mannavöldum. Pruitt var áður ríkissaksóknari Oklahoma en í gær skipaði dómari í ríkinu honum afhenda tölvupóstsamskipti sín við yfirmenn ýmissa olíu-og gasfyrirtækja.
Öldungadeildaþingmenn Demókrata reyndu að koma í veg fyrir það að tilnefning Pruitt yrði staðfest áður en hann afhenti tölvupóstana en Repúblikanar, sem eru í meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings, ákváðu að gengið skyldi til kosninga og var tilnefningin samþykkt með 52 atkvæðum gegn 46.
Umhverfisverndarsamtök óttast að Pruitt muni losa um reglugerðir sem gilda um olíufyrirtæki. Tilnefning hans í embætti er líklega sú umdeildasta í sögu Umhverfisstofnunarinnar þar sem hann hefur ítrekað gagnrýnt störf stofnunarinnar.
Hundruð fyrrverandi starfsmanna hennar hafa skrifað opið bréf til að mótmæla tilnefningu hans og hafa sumir þeirra kallað Pruitt „vanhæfan öfgamann.“
Nýr forstjóri Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna efasemdamaður um loftslagsbreytingar

Tengdar fréttir

Donald Trump: Keith Kellogg og þrír aðrir koma til greina
Bandaríkjaforseti leitar nú að rétta manninum til að taka við stöðu þjóðaröryggisráðgjafa forseta.

Harward hafnar boði um að verða þjóðaröryggisráðgjafi Trump
Talsmaður Hvíta hússins segir að Robert Harward hafi afþakkað boðið af persónulegum og fjárhagslegum ástæðum.

Einstakur fréttamannafundur Trump í Hvíta húsinu
Donald Trump forseti Bandaríkjanna hélt áfram árásum sínum á fjölmiðla á óvæntum fréttamannafundi seinnipartinn í gær.