Íslandsmeistarar Gróttu í Olís-deild kvenna hafa tapað fimm af fyrstu sex leikjum sínum á tímabilinu og eru í næstneðsta sæti deildarinnar. Nú leita menn leiða á Seltjarnarnesinu til að koma liðinu aftur á rétt spor.
Gróttuliðið missti mikið fyrir tímabilið þar á meðal markvörðinn Írisi Björk Símonardóttur, leikstjórnandann Evu Björk Davíðsdóttur og besta varnarmann deildarinnar; Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur.
Grótta hefur nú leitað til Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur um að hún taki skóna af hillunni og spili með liðinu. Morgunblaðið segir frá því í dag að henni standi nú til boða að gerast spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.
Varnarleikur Gróttu hefur gengið illa í fjarveru Önnu Úrsúlu en liðið hefur fengið á sig 26 mörk að meðaltali í leik í fyrstu sex leikjum sínum en fékk aðeins 18 mörk á sig að meðaltali í deildarkeppninni í fyrra.
Anna Úrsúla er að skoða sín mál samkvæmt fyrrnefndri frétt og gerir væntanlega upp hug sinn fyrir helgi. Grótta mætir Haukum á Ásvöllum á laugardaginn.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir var algjör lykilmaður í Íslandsmeistaraliðum Gróttu undanfarin tvö tímabil en hún snéri þá til síns uppeldisfélags eftir sigursæl ár með Val á Hlíðarenda.
Íris Björk Símonardóttir hefur aðstoðað Kári Garðarsson eftir að aðstoðarmaður hans Karl Guðni Erlingsson var látinn fara 4. október síðastliðinn. Íris Björk hefur einnig komið að þjálfun markvarða liðsins.
