Trump hlaut 32,5 prósent atkvæða og var tíu prósentum á undan Marco Rubio og Ted Cruz sem enduðu í öðru og þriðja sæti með rétt rúm 22 prósent atkvæða.
Staða Trump, sem leitt hefur í skoðanakönnunum, hefur því styrkst verulega en hann vann einnig í New Hampshire. Langt er síðan sá frambjóðandi Repúblikana-flokksins sem vann bæði í New Hampshire og Suður-Karólínu hlaut ekki útnefningu flokksins.
Auðkýfingurinn umdeildi hefur komið eins og stormsveipur inn í hið pólitíska landslag Bandaríkjanna og hafa deilur hans við Páfann og aðra keppinauta sína haft lítil sem engin neikvæð áhrif á fylgi Trump.
Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um forkosningarnar í Bandaríkjunum
Illa hefur gengið fyrir flokksgæðinga að keppa gegn Trump og í kjölfar úrslitanna í gær tilkynnti Jeb Bush að hann myndi draga framboð sitt til baka. Var hann lengi vel helsta vonarstjarna hins hefðbundna kjarna Repúblikana. Hann fékk aðeins tæp átta prósent atkvæða í Nevada.
Var Bush helsti keppinautur Marco Rubio um stuðning hins hefbundna kjarna flokksins og þykir góður árangur Rubio í Suður-Karólínu og það að Bush sé hættur merki um það að einvígið um útnefningu flokksins standi á milli Trump og Rubio.
Framundan eru forkosningar í Nevada þann 23. febrúar áður en kosið verður samtímis í þrettán ríkjum þann 1. mars. Er það einn mikilvægasti dagurinn í öllu forkosningaferlinu enda verður kosið um stuðning um fimmtung allra kjörmanna og ljóst þykir að sigur Trump í gær boði gott fyrir hann í komandi forkosningum.
Trump var sigurreifur í sigurræðu sinni í gær.