Fordyri landsins
Reykjanesbrautin er fordyri Íslands. Flestir sem koma til landsins njóta útsýnis þaðan. Hraunið með mosa, fléttum, lyngi, kjarri og margs konar blómum og grösum er undurfagurt og sérstakt á heimsvísu. Síbreytilegt eftir árstíðum og hvort það er bleyta eða þurrkur. Við sem keyrum Reykjanesbrautina nær daglega verðum seint leið á að horfa út um bílrúðurnar.
Eftir tvo áratugi gefur þarna fátt annað að líta en eina jurt – að vísu fallega – en hún mun afmá þessa sérstöku ásýnd að mestu, skyggja á þann gróður sem fyrir er og fela að mestu mishæðir í hrauninu.
Eftir 20 ár verður leitun að vegspotta á Suðvesturlandi þar sem alaskalúpína blasir ekki við. Reynið að ímynda ykkur það! Lúpínan er öflug uppgræðslujurt og gullfalleg – en allt er best í hófi. Einhæfni er leiðigjörn og niðurdrepandi. Viljum við gefa börnum okkar og barnabörnum þetta í arf?

Framtíðarhorfur
Hægt er að hægja á útbreiðslu lúpínunnar með því að taka alla staka toppa árlega. Til þess þarf margar viljugar hendur. Ekki dugar annað en árleg vöktun í áratug eða meira því alltaf koma upp nýjar plöntur, bæði af rótum sem verða eftir og af fræi sem liggur í dvala í jörðinni árum saman.

Lúpína er falleg og mjög áberandi jurt, hvort heldur græn, blá eða brún. Það eykur á fjölbreytni landsins að sjá hana hér og þar. En þegar óvíða er hægt að horfa út um bílrúðu án þess að sjá lúpínu er of langt gengið. Þegar það er orðið staðreynd er allt of seint að hafa þar nokkur áhrif á. Það þarf að gerast ekki seinna en núna!
Sumum finnst þessi þróun í lagi og benda á að lúpínan muni á endanum hörfa. Jú, ekkert varir að eilífu, en þótt hún hörfi á stöku stað (verði gisnari) er útbreiðslan margfalt örari og svo verður næstu áratugi og líklega í meira en öld. Mig grunar að fáum okkar endist aldur til að sjá lúpínu fara að dragast saman á landinu í heild og þegar loks kemur að því verður gróðurinn sem tekur við allt annar en það sem nú gefur að líta. Það verður meiri gróska og meiri skógar en þetta fínlega sem nú heillar svo marga glatast.
Breytingar á ásýnd landsins vegna virkjana, raflína og ýmissa stórkarlalegra mannvirkja eru smámunir miðað við þá breytingu sem í vændum er af völdum lúpínu og stjórnlausrar útbreiðslu hennar.