Erlent

Tveir gíslar létu lífið

Guðsteinn Bjarnson skrifar
Barack Obama segir misheppnaða árás hafa orðið tveimur gíslum að bana.
Barack Obama segir misheppnaða árás hafa orðið tveimur gíslum að bana. Vísir/EPA
Bandaríkin hafa beðist afsökunar á því að tveir gíslar létu lífið þegar árás var gerð á liðsmenn Al Kaída-samtakanna við landamæri Afganistans og Pakistans í janúar síðastliðnum.

Gíslarnir höfðu báðir verið í haldi Al Kaída í meira en tvö ár. Annar þeirra var ítalskur og hét Giovanni Lo Porto, en hinn var bandarískur og hét Warren Weinstein. Ætlunin hafði verið að bjarga gíslunum.

Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti í gær yfir mikilli eftirsjá vegna þessa, en stærði sig jafnframt af því að bandarísk stjórnvöld hefðu brugðist við með því að greina opinskátt frá því sem gerðist.

Fullvíst þykir að árásin hafi verið gerð úr dróna, mannlausu flygildi eins og þeim sem Bandaríkin hafa notað í stórum stíl undanfarin ár til árása á hryðjuverkamenn í Pakistan og víðar.

Talið er að slíkar árásir hafi orðið þúsundum manna að bana, þar á meðal saklausu fólki.

Bandarísk stjórnvöld skýrðu frá því í gær að tveir aðrir bandarískir ríkisborgarar hafi einnig látist í árásinni í janúar. Þeir hafi hins vegar báðir verið liðsmenn Al Kaída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×