Skoðun

Vannýtt hráefni í ferðþjónustu – Tækifæri til fullvinnslu

Líta má á áhuga ferðamanna á náttúru, menningu og sögu Íslands sem nokkurs konar hráefni. Ástæða er til að „fullvinna“ þetta hráefni enn frekar en nú er gert, í þeim tilgangi að auka verðmætasköpun í ferðaþjónustu, dreifa álagi á landið og styðja við byggðaþróun.

Fullvinnslan getur falist í þróun nýrra áfangastaða, þjónustu og vara sem byggja á sérstöðu landsins.

Við fullvinnsluna þarf að kortleggja og greina sérkenni, sjálfsmynd og anda svæða og nýta það hráefni sem grunn fyrir stefnumótun, skipulag, markaðssetningu og vöruþróun. Með yfirsýninni sem þannig fæst yfir fjölbreytni landsins og þá ólíku upplifun sem það býður opnast augu okkar fyrir nýjum tengingum og tækifærum.

Jafnframt verður til nauðsynlegur grunnur til að móta sterkt „brand“ eða mark svæðis, en mark lýsir þeirri upplifun sem svæði býður, t.d. út frá sérkennum í umhverfi og menningu og þeirri þjónustu sem er í boði. „Brandið“ verður í raun loforð til þeirra sem sækja svæði heim eða kaupa þaðan vöru, um að þeir muni upplifa eða fá það sem sagt er. „Brand“ sem byggir á sérkennum svæðis getur einnig styrkt sjálfsmynd og stolt heimamanna og ýtt undir samstöðu um sameiginleg markmið við þróun svæðis.

Skipulagsáætlanir eru tilvalin verkfæri við fullvinnsluna. Þær má nýta til að greina og „branda“ svæði og setja fram stefnu um framtíðarþróun sem byggir á sérkennum í sögu og landslagi. Samræmd kynning og markaðssetning á þessum grunni stuðlar síðan að sterkari ímynd svæðis.

Séu minni og stærri svæði tekin skipulega fyrir með framangreindum hætti, má stuðla að því að auðlindir fólgnar í landslagi og sögu verði nýttar sem best til breiðrar verðmætasköpunar. Snæfellingar hafa mótað sér stefnu um byggðaþróun í þessum anda og lagt af stað í vegferð sem þessa (sjá nánar á snaefellsnes.is).

Með því að nýta áhuga ferðamanna – hráefnið, túlka betur og fræða um það sem í tilteknum svæðum býr, getum við fjölgað áfangastöðum, dreift álagi og lengt dvalartíma á hverjum stað. Þannig verður Ísland ekki bara eitt „brand“, ferðamenn hafa ástæðu til að koma aftur og aftur og stuðlað er að aukinni sátt ferðamanna og íbúa.






Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×