Jón Þór Ólafsson þarf að sitja þrjá fundi á sama tíma og Birgitta Jónsdóttir tvo.vísir/vilhelm
Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati er eini þingmaður flokksins sem getur mætt á fundi fastanefndar Alþingis án nokkurra árekstra. Jón Þór Ólafsson þarf að vera á þremur fundum á sama tíma og Birgitta Jónsdóttir á tveimur. Þingmennirnir þrír skipta á milli sín setu í átta fastanefndum auk forsætisnefndar, Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, þingskapanefndar og fleiri nefnda.
Þetta kemur fram á vef Pírata í ljósi fréttar Morgunblaðsins í dag þess efnis að Píratar hefðu versta mætingu í sex af átta fastanefndum Alþingis. Fréttin hefur verið töluvert gagnrýnd, þar á meðal af Katrínu Júlíusdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar.
Píratar eru með þrjá þingmenn að reyna að dekka allar nefndir. Þau þurfa því að taka ákvörðun útfrá málum hvenær þau mæ...
Þá segir á vefnum að allur gangur sé á því í hvaða fastanefnd þingmennirnir sitji hverju sinni. Jón Þór þurfi á mánudags- og miðvikudagsmorgnum að velja á milli þess að vera á fundum efnahags- og viðskiptanefndar, fjárlaganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar. Birgitta þurfi á þriðjudögum og fimmtudögum að vera á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og utanríkismálanefndar á sama tíma.
Þingmennirnir fari vandlega yfir allar dagskrár nefndarfunda og forgangsraði tíma sínum og hvaða fundi skuli mætt á eftir því hvað sé á dagskrá hverju sinni. Þingmennirnir reyni ávallt að vera þar sem dagskrárliðir sem hafi snertiflöt við grunnstefnu Pírata.