Innlent

Ungir menn staðnir að því að skjóta gelkúlum á veg­far­endur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra í nótt.
Lögregla naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra í nótt. Vísir/Vilhelm

Nóttin var fremur róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en fjórir gistu fangageymslur í morgun. 

Í yfirliti lögreglu er aðeins greint frá fjórum málum en þar segir meðal annars frá ungum mönnum á bifreið, sem voru að leika sér að því að skjóta gelkúlum úr leikfangabyssu að öðrum vegfarendum.

Lögregla ræddi við mennina, sem eru sagðir hafa iðrast og lofað bót og betrun.

Lögreglu barst einnig tilkynning um menn sem voru sagðir hafa gengið inn á bar og ráðist á mann. Einn þeirra var sagður hafa dregið upp hníf en ekki beitt honum. Bæði gerendurnir og þolandinn voru á brott þegar lögreglu bar að garði. Rætt var við vitni en brotaþoli hefur ekki fundist og málið þannig sagt í pattstöðu.

Í póstnúmerinu 110 var tilkynnt um mann sem var sagður hafa gengið berserksgang við íbúðakjarna. Hafði hann ráðist á íbúa, haft í hótunum og skemmt eigur. Maðurinn var handtekinn og á honum fundust fíkniefni. Hann gistir fangageymslur þar til hann verður viðræðurhæfur.

Einn var stöðvaður í umferðinni undir áhrifum fíkniefna, sem er ef til vill ekki í frásögur færandi nema af því að þetta ku hafa verið í tólfta skiptið sem viðkomandi var stöðvaður við akstur án ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×