Engum leigusamningi hefur verið þinglýst vegna Ránargötu 6a, íbúðarinnar sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segist leigja af eignarhaldsfélagi í eigu stjórnarformanns Orku Energy.
Ekki er því að hægt að fá upplýsingar um hvenær leigusamningur á milli Illuga og félagsins var gerður né hversu mikið hann greiðir í leigu.
Samkvæmt upplýsingum af vef fasteignaskrár ríkisins um meðalleiguverð fasteigna á þessu svæði má ætla að leiguverð sé ekki undir 260 þúsund krónum á mánuði, sé greitt markaðsverð fyrir íbúðina, eins og Illugi hefur sagt í samtali við RÚV. Íbúðin er tæpir 138 fermetrar.
Íbúðin er í eigu OG Capital, félags sem Illugi átti sjálfur um nokkurra ára skeið, sem í dag er í eigu Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy.
Íbúðin var afhent OG Capital 31. desember árið 2013 en kaupdagur eignarinnar er skráður tæpum sjö mánuðum síðar, 23. júlí á síðasta ári. Fasteignamat eignarinnar er 39,5 milljónir króna en brunabótamatið er tæpum 9 milljónum krónum lægra.
Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir 2013, sem er nýjasti birti ársreikningur félagsins, var íbúðin keypt á 53,5 milljónir króna. Stundin hefur greint frá því að 55 milljónir króna hafi hvílt á eigninni þegar eignarhaldsfélag Hauks keypti hana.
