Íslenski boltinn

Jón Rúnar: FH er orðið atvinnumannafélag

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, segir að FH sé komið á þann stað að það sé hægt að kalla það atvinnumannafélag. Hann segir að auðvitað séu einhverjir sem öfundast inn á milli, en hann segir að hann vonist til að menn séu bara svona hrifnir af því sem svart-hvíta liðið í Hafnarfirði sé að gera.

 

„Við erum komnir á þann stað að við erum orðnir atvinnumannafélag, þannig laga séð og við þurfum að hafa góða leikmenn og góða þjálfara. Við þurfum að bæta við umgjörðina og það er það sem við höfum verið að gera," sagði Jón Rúnar Halldórsson í samtali við Guðjón Guðmundsson.

 

Er FH-liðið í ár dýrasta lið sögunnar? „Ég hef engar forsendur til að meta það, en ég get sagt eitt. FH-liðið og FH-liðin undanfarin ár hafa verið þau lið sem hafa borgað sig sem mest," en Jón Rúnar tekur undir orð Guðjóns um að það sé mikilvægt að landa titlum.

 

„Það segir sig sjálft að það er forsenda þess að við löndum titlum. Það er mikilvægt að vera í því sæti sem gefur Evrópusæti. Við erum að fara í Evrópukeppni tólfta árið í röð og við höfum fundið lyktina af þessum réttum sem þar eru í boði. Við ætlum að fara nær réttunum."

 

Guðjón spurði Jón Rúnar út í það hvort menn séu byrjaðir að öfunda FH vegna þessa leikmanna og aðstöðu sem þeir ganga að. Jón Rúnar heldur að svo sé ekki.

 

„Við teljum okkur trú um það að menn séu hrifnir af því sem við erum að gera. Öfundist ekki svo mikið. Auðvitað eru einhverjir sem öfundast inn á milli og væru til í að vera á vagninum með okkur. Það er alveg ljóst," sagði Jón Rúnar að lokum.

Allt innslagið má sjá í sjónvarpsglugganum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×