Handbolti

Ótrúlegur seinni hálfleikur Hauka | 14 mörk Kristínar fyrir norðan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristín Guðmundsdóttir skoraði rúmlega 60% marka Vals gegn KA/Þór í dag.
Kristín Guðmundsdóttir skoraði rúmlega 60% marka Vals gegn KA/Þór í dag. vísir/daníel
Fimm leikir fóru fram í Olís-deild kvenna í handbolta í dag.

Haukar unnu FH í Hafnarfjarðarslagnum, 27-17, eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik, 5-10. Haukastúlkur unnu seinni hálfleikinn 22-7, en þær urðu á dögunum fyrsta liðið til að leggja Fram að velli í deildinni.

Marija Gedroit var markahæst í liði Hauka með sjö mörk, en Ásta Björk Agnarsdóttir kom næst með fjögur.

Ingibjörg Pálmadóttir skoraði fimm mörk fyrir FH sem hefur aðeins unnið tvo leiki í vetur.

Grótta gerði góða ferð í Kópavoginn og vann sex marka sigur á HK, 18-24.

Eva Björk Davíðsdóttir skoraði mest fyrir Gróttu eða sex mörk. Karólína Bæhrenz Lárudóttir kom næst með fimm mörk.

Gerður Arinbjarnar og Þórhildur Braga Þórðardóttir skoruðu fjögur mörk hvor fyrir HK.

Grótta er með 22 stig líkt og Fram sem vann fjögurra marka sigur, 19-23, á Selfossi. Staðan í hálfleik var 9-9.

Ragnheiður Júlíusdóttir var öflug í liði Fram með sex mörk, en Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði Selfoss með sjö mörk.

Í Árbænum vann Stjarnan eins marks sigur, 24-25, Fylki. Stjörnustúlkur eru nú komnar með 20 stig, tveimur færri en Fram og Stjarnan.

Sólveig Lára Kjærnested skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og Þórhildur Gunnarsdóttir fimm. Thea Imani Sturludóttir var atkvæðamest hjá Fylki með sjö mörk.

Þá skildu KA/Þór og Valur jöfn á Akureyri, 23-23. Valskonur voru yfir í hálfleik 10-13 og náðu svo fimm marka forskoti, 10-15, sem Norðankonur unnu svo upp.

Kristín Guðmundsdóttir var allt í öllu hjá Val og skoraði 14 mörk eða 61% allra marka liðsins.

Martha Hermannsdóttir fór fyrir KA/Þór með níu mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×