Íslenski boltinn

Kjartan Henry: Þykist ekki vera einhver Mel Gibson

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kjartan Henry í fyrri leiknum á KR-vellinum.
Kjartan Henry í fyrri leiknum á KR-vellinum. vísir/arnþór
„Þetta var mjög erfitt,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, framherji KR, við Vísi í kvöld eftir 4-0 tapið gegn Celtic ytra í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

KR tapaði fyrri leiknum heima, 1-0, og einvíginu samanlagt, 5-0, en Skotlandsmeistararnir voru virkilega öflugir í kvöld og komust snemma 2-0 yfir.

„Það var virkilega erfitt að fá á sig mark svona snemma, en við reyndum okkar besta og spiluðum ágætis leik þó það hljómi kannski skringilega,“ sagði Kjartan Henry.

„Þetta er bara klassalið sem spilaði betur en við áttum kannski von á. Svona fór þetta bara. Við verðum bara að ná okkur eftir þetta og einbeita okkur að næsta verkefni.“

Framherjinn vildi þó ekki meina að Celtic-menn hefðu verið eitthvað að slaka á hér heima þó þar hafi KR-inga haldið betur í við þá.

„Alls ekki. Við fengum bara tvö mörk á okkur frekar snemma í kvöld úr horni. Svona gerist. Það drap allt niður og við förum inn í hálfleik 3-0 undir. Við reyndum að halda hreinu í seinni hálfleik og pota inn einu. Við fengum fín færi, en þetta gekk ekki í dag. Þetta er hundfúlt og lítur illa út, en við stóðum okkur ágætlega engu að síður,“ sagði Kjartan Henry sem fór úr axlarlið í fyrri hálfleik.

„Þetta hefur komið fyrir áður. Ég þarf eitthvað að fara að styrkja öxlina,“ sagði hann og hló við. Hann viðurkennir fúslega að það sé sárt að láta kippa sér aftur í lið.

„Já, ég ætla ekki að þykjast vera einhver Mel Gibson. Þetta er auðvitað búið að gerast svo oft núna að þetta venst. En þetta er auðvitað sárt og var það sérstaklega í fyrsta skiptið,“ sagði Kjartan Henry finnbogason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×