Skoðun

2007 í augsýn!

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Krafan um að skuldugu fólki verði bætt áföllin sem urðu vegna afleiðinga hrunsins – vegna „forsendubrestsins” svonefnda – er einfaldlega krafa um að staða skuldsettra heimila verði gerð sú hin sama og hún var fyrir hrun.

Þessa sömu kröfu má eins orða þannig: „Við viljum fá 2007 aftur!”

Þá þegar voru samt 16 þúsund heimili komin á vanskilaskrá – höfðu sem sé lifað langt um efni fram og sáu fram á greiðsluþrot. Níu þúsund heimili bættust við skrána við hrunið. Er fólk þá sátt við að einungis þeim heimilum, sem bættust á vanskilaskrána í hruninu, verði hjálpað? Er krafan um að „forsendubresturinn” sé bættur ekki einvörðungu sú? Að hin 16 þúsundin verði þá skilin eftir eins og þau voru á sig komin af eigin völdum fyrir hrun – án nokkurs „forsendubrests”?

Eða er ætlast til þess að skuldlitlir lífeyrisþegar, skuldlitlir skattborgarar – nú eða erlendir lánveitendur, sem skuldunautar þeirra kalla „hrægamma”, taki þeirra vanda á sig líka? Vanda þessara 16 þúsunda sem komu sér á vanskilaskrá án nokkurrar utanaðkomandi „aðstoðar”?

Af einhverjum orsökum hefur hin sjálfhverfa kynslóð aldrei gefið neitt svar við þessari einföldu spurningu? Þeir Bjarni og Sigmundur Davíð vita því ekki hvað skuldsetta fólkið vill nákvæmlega. Vill það „forsendubrestinn” einan bættan - eða vill það að skuldir þess alls séu greiddar niður, hvernig svo sem skuldavandinn er til kominn?

2007 á góðri leið

Vill þetta fólk virkilega fá lífshættina eins og þeir voru fyrir hrun aftur – fá aftur ástandið, sem skóp „forsendubrestinn”? Þegar draumurinn var að græða á daginn og grilla á kvöldin. Þegar íslensk heimili urðu á fjórum árum skuldsettustu heimili innan OECD.

Ég fæ satt að segja ekki séð annað en að íslenska þjóðin sé á góðri leið áleiðis að því markmiði – án nokkurrar hjálpar annarra en sjálfrar sín. Árið 2007 námu yfirdráttarskuldir heimilanna, kreditkortaskuldir og neyslulán 77 milljörðum króna. Nú nálgast þessar skuldir 90 milljarða!

Fyrir hrun hugðust fjölmargir Íslendingar hagnast á því að slá lán til hlutafjárkaupa, græða á því morðfjár og komast með tærnar á hæla gulldrengjanna, sem var æðsti óskadraumur fjölmargra heimilisfeðra. Nú eru menn aftur byrjaðir á sama athæfi. Slá lán til hlutafjárkaupa í von um margfalda uppskeru. 2007 er komið á færibandið og færist nær!

Aftur hægt að grilla

Heildarhagsmunir er orð, sem virðist vera illskiljanlegt, a.m.k. er það ekki í hávegum haft. Góðkunnur rithöfundur og íslenskumaður sagði mér á dögunum, að nú skildu nemendur í íslenskunámi; framhaldsnámi; ekki lengur orðið „blæbrigði”. Hví ætti fólk þá að skilja orðið „heildarhagsmunir”?

Samt er þó enn fullur skilningur á orðinu „eiginhagsmunir”. Þar er átt við budduna, hvað kemur mikið af aurum í hana og að aurarnir komi strax. Sama hvaðan „gott” kemur; hvort heldur frá afa og ömmu, frá nágrönnunum nú eða „hrægömmunum” – bara að það komi, komi strax og komi nóg.

Þá getum við nefnilega aftur farið að grilla.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×