Handbolti

Sverre verður áfram þótt liðið falli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Grosswallstadt gaf það út í dag að varnartröllið Sverre Jakobsson hafi skrifað undir eins árs samning við félagið, en Sverre greindi sjálfur frá því á Facebook-síðu sinni í gær að hann yrði áfram hjá félaginu.

Grosswallstadt á í mikilli fallbaráttu í þýsku úrvalsdeildinni en liðið er í næstneðsta sæti deildarinnar með sjö stig eftir 20 leiki. Liðið er sem stendur fjórum stigum frá öruggu sæti.

Liðið vann reyndar mikilvægan sigur á Wetzlar, 28-26, á föstudaginn síðastliðinn en það var fyrsti leikur Rúnars Kárasonar með liðinu. Hann skoraði fjögur mörk en Rúnar er nýbúinn að jafna sig á krossbandsslitum.

Samkvæmt samningi Sverre, sem er einnig fyrirliði Grosswallstadt, verður hann áfram hjá liðinu þó svo að það falli í B-deildina.

Sverre, sem er 36 ára gamall, er í miklum metum hjá stuðningsmönnum liðsins. „Við fögnum þess mjög að hann hafi ákveðið að taka eitt tímabil til viðbótar með okkur," sagði framvkæmdarstjórinn Guido Heerstrass við þýska fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×