Íslenski boltinn

Lífsbaráttulaugardagur: Leiknir og Höttur berjast fyrir lífi sínu í 1. deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
Lokaumferðir 1. deildar og 2. deildar karla í fótbolta fara fram í dag og þar kemur í ljós hvaða lið fylgir ÍR niður úr 1. deildinni og hvaða tvö lið munu koma upp úr 2. deildinni í staðinn. Leiknir og Höttur berjast fyrir lífi sínu í 1. deild en fjögur lið eiga enn von um að tryggja sér sæti í 1. deildinni.

Leiknir R. vann 3-2 útisigur á Hetti á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum um síðustu helgi og hefur því eins stigs forskot á Hött fyrir lokaumferðina í dag. Höttur sækir topplið Þórs heim á Þórsvöll á sama tíma og Leiknismenn taka á móti botnliði ÍR sem er þegar fallið. Það búast því flestir við því að Leiknismönnum takist að bjarga sér.

Willum Þór Þórsson var rekinn sem þjálfari Leiknis í byrjun september en Leiknismenn hafa unnið báða leiki sína síðan að þeir Davíð Snorri Jónasson og Gunnar Einarsson tóku við.

Það er mikil spenna í lokaumferð 2. deild karla sem fer fram á sama tíma. Völsungur, KF, HK og Afturelding eiga öll möguleika á því að komast upp en mismikla þó. Völsungar eru í bestu stöðunni með 3 stiga forskot á HK og Aftureldingu sem eru jöfn í 3. og 4. sæti. Húsvíkingum nægir því jafntefli á heimavelli á móti Njarðvík til þess að komast upp.

KF er líka í góðri stöðu í 2. sætinu með einu stigi minna en Völsungur og tveimur stigum meira en HK og Afturelding. KF er líka með langbestu markatöluna af liðunum fjórum. KF heimsækir Hamar í Hvergerði og jafntefli á að duga liðinu nema ef að HK og Afturelding taki upp á því að vinna risasigur í innbyrðisleik liðanna.

Það er samt bara stærðfræði-möguleiki því á sama tíma og KF er með +28 í markatölu þá eru HK-ingar +15 og Afturelding aðeins +5. Völsungar eru síðan +14 í markatölu.



Leikirnir í 1. deild karla í dag:

14:00 Haukar - Fjölnir Schenkervöllurinn

14:00 Þór - Höttur Þórsvöllur

14:00 Víkingur Ó. - Víkingur R. Ólafsvíkurvöllur

14:00 BÍ/Bolungarvík - KA Torfnesvöllur

14:00 Þróttur R. - Tindastóll Valbjarnarvöllur

14:00 Leiknir R. - ÍR Leiknisvöllur

Leikirnir í 2. deild karla í dag:

14:00 Reynir S. - Fjarðabyggð N1-völlurinn

14:00 Dalvík/Reynir - KFR Dalvíkurvöllur

14:00 Völsungur - Njarðvík Húsavíkurvöllur

14:00 Afturelding - HK Varmárvöllur

14:00 Hamar - KF Grýluvöllur

14:00 Grótta - KV Gróttuvöllur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×