Íslenski boltinn

Ragnar: Pappakassar og pabbapólitík hjá HK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Gíslason var í gær rekinn sem þjálfari 2. deildarliðs HK en hann var í viðtali hjá Hirti Hjartarsyni í Boltanum á X-inu í dag.

HK var ekki langt frá því að komast upp í 1. deildina en Ragnar sagði ýmislegt misjafnt í rökstuðningi meistaraflokksráðs félagsins fyrir brottvikningu sinni.

„Ein ástæðan fyrir því að mér var sagt upp var að við fórum ekki upp um deild. En þessir sömu menn sögðu fyrir mót að liðið væri ekki með mannskap til að fara upp og að það þyrfti eitthvað mikið að breytast til að það væri mögulegt," sagði Ragnar.

„Það eru alls konar pappakassar sem fást í þessi störf - hvort sem það heitir HK eða eitthvað annað" bætti hann við og átti þá við þá sem ráða málefnum meistaraflokks innan félagsins. „Þetta er bara veruleikinn sem við búum við. Ef maður ætlar að vera í þessum pakka þá verður maður að kyngja því."

„Ég er auðvitað hundfúll með að fá sparkið en þetta er niðurstaðan og lítið sem ég get gert við því. Ég fékk hringingu í gær þar sem mér var tilkynnt þetta en þetta var farið að kvisast út á laugardagskvöldið frá einhverjum pabbastráknum. Ég fékk þá spurnir af þessu. Það er pabbapólitík hér eins og annars staðar. Það vita allir."

Ragnar mun starfa áfram hjá HK sem yfirþjálfari yngri flokka.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ragnar í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×