Íslenski boltinn

Lagerbäck tjáir sig ekki fyrr en viðræðum lýkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lars Lagerbäck vill ekki ræða stöðu viðræðna við KSÍ sem stendur.
nordicphotos/getty images
Lars Lagerbäck vill ekki ræða stöðu viðræðna við KSÍ sem stendur. nordicphotos/getty images
Það virðist vera komin nokkur hreyfing á landsliðsþjálfaramálin hjá KSÍ en Ólafur Jóhannesson stýrir sínum síðasta landsleik á föstudag. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, staðfesti við íþróttadeild í gær að hann væri í viðræðum við Svíann Lars Lagerbäck um að taka að sér starfið.

Svíinn er einnig sagður vera í viðræðum við forráðamenn austurríska knattspyrnusambandsins. Talið var að hann væri úr myndinni þar en austurrískir miðlar greindu frá því í gær að Lagerbäck væri enn í myndinni hjá Austurríki.

Lagerbäck lýsti yfir áhuga á að taka við íslenska landsliðinu í samtali við Fréttablaðið á dögunum. Þá sagðist hann vera til í að ræða við KSÍ og Fréttablaðið spurði hann í gær hver staða mála væri?

„Á meðan ekkert er frágengið í mínum málum hef ég ákveðið að sleppa því að tjá mig. Þið verðið því að bíða og sjá hvað verður,“ segir Lagerbäck.

„Þegar í ljós kemur hvort ég verði landsliðsþjálfari Íslands eður ei er þér velkomið að ræða eins mikið við mig og þú vilt. Ég tel það ekki vera rétt af mér að ræða mín mál í fjölmiðlum á meðan þau eru í óvissu. Ég held að það eigi við um alla.“

Hinn 63 ára gamli Lagerbäck var lengi vel landsliðsþjálfari Svía og kom liðinu á fimm stórmót í röð á sínum tíma. Hann hefur undanfarið verið að vinna fyrir sænska knattspyrnusambandið og Knattspyrnusamband Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×