Íslenski boltinn

Atli og Gísli Páll bera af sér sakir - Jóhann Helgi vill ekki tjá sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 liðs Íslands.
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 liðs Íslands. Mynd/Vilhelm
Þórsararnir Atli Sigurjónsson og Gísli Páll Helgason segja það alrangt að Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 liðs karla, hafi gefið þeim þau skilaboð að þeir ættu ekki möguleika á sæti í liðinu á meðan þeir væru hjá 1. deildarliði. Jóhann Helgi Hannesson vildi ekki tjá sig um málið.

Þetta hafði Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, eftir sínum leikmönnum sem hann nafngreindi reyndar ekki í viðtali á Fótbolti.net.

„Það eru orð sem ég hef eftir þeim, að þeir hafi fengið skýr skilaboð frá U-21 árs landsliðsþjálfaranum,“ er haft eftir Páli Viðari. Eyjólfur sagði svo síðar við sama miðil að þetta væri alrangt.

Vísir hafði samband við þá þrjá leikmenn Þórs sem Eyjólfur hefur valið í U-21 landsliðið á þessu ári - þá Atla, Gísla Pál og Jóhann Helga. Þeir tveir fyrstnefndu könnuðust ekki við að hafa sagt Páli Viðari þetta.

Allir þrír leikmenn duttu úr landsliðshópi U-21 liðsins fyrir leiknn gegn Englandi ytra í síðustu viku.

„Það kom mér á óvart að lesa þetta. Ég man ekki eftir því að hann [Eyjólfur] hafi sagt þetta,“ sagði Gísli Páll. Atli tók í sama streng. „Þetta er ekki frá mér komið og er væntanlega misskilningur. Ég veit ekki hvaðan Palli [Páll Viðar] hefur þetta.“

Gísli Páll ætlaði að hafa samband við Eyjólf vegna þessa. „Það er eins og að við séum reiðir út í hann [Eyjólf] sem er alls ekki rétt. Það er 100 prósent klárt að þetta sagði ég aldrei við Palla.“

Jóhann Helgi baðst undan viðtali þegar Vísir hafði samband við hann.

Smelltu hér og hér til að lesa fréttir Fótbolta.net um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×