Íslenski boltinn

Hannes Þór Halldórsson: Þetta tók á taugarnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. Mynd/Hag
Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, er kominn í bikarúrslitaleikinn á sínu fyrsta tímabili í Vesturbænum eftir að KR-liðið vann 4-1 sigur á BÍ/Bolungarvík í undanúrslitum Valitorsbikarsins á Ísafirði í kvöld. KR mætir Þór í bikarúrslitaleiknum sem fram fer 13. ágúst.

„Þetta var strembið og tók á taugarnar. Við mættum bara mjög vel skipulögðu, ákveðnu og grimmu liði sem lokaði vel á okkur. Þeir áttu sínar sóknir og við þurftum að hafa fyrir hlutunum. Þeir skoruðu síðan algjört draumamark sem ég held að enginn mannlegur kraftur hefði varið," sagði Hannes í viðtali við Þröst Emilsson í KR-útvarpinu eftir leikinn.

„Þetta var mjög erfiður leikur og við erum í skýjunum með að hafa klárað þetta. Við bjuggumst við mjög erfiðum leik hérna og ég held að leikurinn hafi spilast eins og við sáum fyrir okkur. Þeir voru með allan bæinn með sér og að spila stærsta leik ársins á Ísafirði. Þeir komu svipað grimmir og við bjuggumst við, mjög skipulagðir og svo með þennan þjálfara sem kann þetta alveg og hefur gert þetta áður. Það var frábært að klára þetta," sagði Hannes.

„Það verður spennandi verkefni að mæta Þór í úrslitaleiknum. Þeir berjast eins og ljón og hafa komið mörgum á óvart í sumar með góðri spilamennsku. Þeir kláruðu náttúrulega ÍBV sem er eitt sterkasta lið landsins og hafa sýnt að þeir geta unnið hvaða lið sem er. Þeir munu refsa okkur ef við mætum ekki klárir. Ég hlakka mikið til og þetta verður veisla," sagði Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×