Íslenski boltinn

Rúnar: Bjarni, Viktor og Guðmundur Reynir fara ekki með til Tbilisi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Mynd/Hag
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, kom KR-liðinu í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð í kvöld þegar KR vann 4-1 sigur á BÍ/Bolungarvík í undanúrslitum Valitorsbikarsins á Ísafirði. KR-liðið vann 4-0 sigur á Fram undir hans stjórn í undanúrslitaleiknum í fyrra en gerði út um leikinn í dag með því að skora þrjú mörk á síðustu tíu mínútunum.

„Mér finnst við hafa verið með öll tök á þessum leik. Þeir sköpuðu sitt eftir skyndisóknir og voru að nýta sér þennan vind með því að sparka langt fram," sagði Rúnar í viðtali við Valtý Björn Valtýsson í útsendingu Stöðvar 2 Sport frá leiknum.

„Við komumst í 1-0 en mér fannst við vera klaufar eftir markið að sækja of mikið í stað þess að halda boltanum eins og við gerðum þegar við komumst yfir í 2-1. Við vorum ekki nægilega þolinmóðir," sagði Rúnar sem þurfti að skipta Guðjón Baldvinssyni útaf í fyrri hálfleik vegna meiðsla.

„Hann var tæpur fyrir leikinn en taldi sig vera í lagi. Við létum hann byrja til að prufa en það gekk ekki nema í tuttugu mínútur. Við tókum hann bara útaf því það var ekki hægt að halda honum þannig inn á," sagði Rúnar en hann ætlar að hvíla menn í Evrópuleiknum í Tbilisi í næstu viku.

„Ég er búinn að ákveða það skilja menn eftir. Bjarni fær að vera heima, Viktor Bjarki verður heima, Guðmundur Reynir verður heima og Jordao Diogo verður heima. Guðjón fer með okkur, hann fer í spa og nudd og við hugsum vel um hann. Við reynum að koma með hann ferskan til baka," sagði Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×