Íslenski boltinn

Svava: Náðum besta árangri sem íslenskt fótboltalið hefur náð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar með verðlaunin sín í gær. Svava er önnur frá vinstri í neðri röð.
Stelpurnar með verðlaunin sín í gær. Svava er önnur frá vinstri í neðri röð. Mynd/Íris Björk Eysteinsdóttir
Íslenska 17 ára landslið stelpna endaði í fjórða sæti á Evrópumótinu sem lauk í Nyon í Sviss í gær. Íslenska liðið tapaði 2-8 á móti Þjóðverjum í leiknum um þriðja sætið. Telma Þrastardóttir og Aldís Kara Lúðvíksdóttir skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Eyjastelpan Svava Tara Ólafsdóttir var í viðtali hjá Írisi Björk Eysteinsdóttur, fjölmiðlafulltrúa íslenska liðsins, eftir leikinn á móti Þjóðverjum í gær.

„Þetta er búið að vera geðveikt. Við höfum lært mikið af þessu. Það er gaman að spila fyrir hönd Íslands og þetta er mikill heiður. Það sem stendur uppúr í þessari keppni er að vera eitt af fjórum bestu þjóðum í Evrópu og nú náum við besta árangri sem íslenskt fótboltalið hefur náð. Það er frábært að vera hluti af því," sagði Svava Tara Ólafsdóttir sem var að leika sinn ellefta landsleik fyrir 17 ára liðið.

„Ég lærði helling af þessari keppni. Það er ljóst að hin liðin eru teknískari. Við þurfum að bæta okkur þar. Þetta er skemmtilegur íslenskur hópur. Við hefðum aldrei náð svona langt ef við hefðum ekki náð svona vel saman. Ég stefni alla leið í fótboltanum. Stefni á A-landsliðið og vonandi út í skóla og atvinnumennsku, "  sagði Svava Tara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×