Íslenski boltinn

Semjum aldrei aftur við Íslendinga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sandra í búningi Stjörnunnar.
Sandra í búningi Stjörnunnar.
Forráðamenn sænska knattspyrnufélagsins Jitex eru allt annað en sáttir við markvörðinn Söndru Sigurðardóttur. Varaformaður félagsins hefur lokað dyrunum á íslenskt knattspyrnufólk og segir að brennt barn forðist eldinn og á þar við sænska félagið.

Þetta kemur fram í viðtali sænska fjölmiðilsins Expressen við Lennart Lindorsson varaformann Jitex.

Sandra hefur haldið því fram að sænska félagið hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þessu hafna forráðamenn Jitex og segja Söndru hafa fengið ríflega greitt á tíma sínum hjá félaginu.

„Við höfum uppfyllt skuldbindingar okkar og rúmlega það. Hún hefur í raun fengið meiri pening en samningurinn segir til um," segir Lindorsson.

Meðal þess sem Lindorsson nefnir er að félagið hafi aðstoðað Söndru með húsaleigu, greiðslu fyrir breiðband og farsímakostnað. Hann telur að Sandra hafi sagt upp samningnum vegna fjölskylduaðstæðna.

Lindorsson fer hörðum orðum um framkomu Söndru sem hann segir hafa brotið samning sinn.

„Við ætlum að fá tilbaka þá peninga sem við höfum lagt út. Við erum handvissir að við vinnum málið," segir Lindorsson sem er tilbúinn að fara alla leið með það.

„Það er ekki hægt að rifta samningi á þennan hátt í Svíþjóð. Kannski er það hægt á Íslandi," sagði Lindorsson.

Lindorsson segir að Jitex muni ekki brenna sig aftur á því að semja við íslenska leikmenn.

„Brennt barn forðast eldinn," sagði Lindorsson.

Expressen hafði ekki tekist að ná samandi við Söndru. Þeir höfðu reynt að ná í hana í íslenskt farsímanúmer og Lindorsson hafði sýna skoðun á því.

„Jitex greiðir farsímakostnaðinn á sænska símanúmerið hennar þannig að ekki hringja í það," sagði Lindorsson í samtali við Expressen.

Sandra Sigurðardóttir sagði í samtali við blaðamann Vísis að hún teldi best að tjá sig ekki frekar um þetta mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×