Íslenski boltinn

Eiður Smári talar ekki við íslenska fjölmiðla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingunni í gær.
Eiður Smári Guðjohnsen á æfingunni í gær. Mynd/Anton

Eiður Smári Guðjohnsen var hvergi sjáanlegur við upphaf morgunæfingar íslenska A-landsliðsins í fótbolta á Framvellinum í dag en KSÍ bauð þá íslenskum fjölmiðlum aðgengi að landsliðsmönnunum í tilefni af vináttulandsleik Íslands og Liechtenstein á morgun.

Eiður Smári tók engu að síður þátt í æfingunni í morgun og verður væntanlega í byrjunarliði Ólafs Jóhannessonar á morgun.

Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi landsliðsins, tjáði síðan blaðamanni Fréttablaðsins að Eiður Smári myndi ekki veita íslenskum fjölmiðlum viðtal á æfingunni ekki frekar en hann gerði á æfingunni kvöldið áður.

Þegar Ómar var spurður út í það hvort þetta "fjölmiðlabann" stærstu knattspyrnustjörnu landsins myndi halda áfram fram yfir leikinn við Liechtenstein var svarið að þeir tækju bara eina æfingu fyrir í einu.

Mikil óvissa er í kringum fótboltaframtíð Eið Smára Guðjohnsen því Mónakó vill ekki nota hann og áhugasöm félög virðast ekki treysta sér í háar launakröfur hans ef marka má fréttir breskra fjölmiðla. Eiður Smári var síðast orðaður við enska liðið Fulham.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×