Íslenski boltinn

Eyjólfur: Skotar voru ánægðir með að hafa tapað bara 2-1

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson.
Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari U-21 liðs Íslands, á von á erfiðum leik gegn Skotum á Easter Road í Edinborg í kvöld.

Fyrri leik liðanna lauk með 2-1 sigri Íslands á Laugardalsvelli en í húfi í kvöld er sæti í sjálfri úrslitakeppni EM sem fer fram í Danmörku á næsta ári. Aðeins átta lið komast í úrslitakeppnina og yrði það mikið afrek fyrir íslenska liðið að komast í þann hóp.

Eyjólfur hefur skoðað vel síðasta leik og reiknar með að Skotar muni reyna að sækja meira í dag.

„Þetta er afar vinnusamt lið og ég reikna með að þeir muni pressa mikið á okkur. Mér hefur skilst á því sem ég hef lesið í blöðunum að þeir ætli okkur ekki að leyfa að spila boltanum eins og við gerðum síðast."

„Þeir fundu að við erum öflugir á því sviði. Við látum boltann ganga hratt manna á milli og erum fljótir að finna kantana og nýta okkur þá. Þeir sögðu að ekkert lið í þeirra riðli í undankeppninni hefði verið að spila svo fljótt og verið jafn framsæknir og við. Það kom þeim í opna skjöldu og þeir voru ánægðir að fara heim með aðeins 2-1 tap á bakinu," segir Eyjólfur.

„Þeir munu reyna að hindra okkar spil og leysa upp leikinn. Þeir segja að það verði þeirra taktík og við erum undirbúnir fyrir það."

„Við munum reyna að nýta okkur þetta og teygja þá í sundur sem lið. Þá opnast svæði sem við getum nýtt okkur enda afar mikilvægt að sækja ekki á þá þar sem þeir eru þéttastir fyrir. Við þurfum að nýta okkur kantana og komast á bak við varnarlínuna þeirra."

Þó svo að jafntefli muni duga Íslandi í dag segir Eyjólfur að liðið muni leggja áherslu á að sækja og skora.

„Við ætlum okkur að skora. Við höfum alltaf skorað í okkar leikjum og höfum verið duglegir að sækja. Við viljum halda því áfram. Það þýðir ekkert bara að verjast þegar við erum með boltann. Það er til einskis. Við erum sterkir í okkar sóknarleik og vitum vel af því. Við erum óhræddir við að halda boltanum og munum gera það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×