Handbolti

Einar: Eigum að vera með besta liðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Jónsson, þjálfari Fram.
Einar Jónsson, þjálfari Fram. Mynd/Anton
Einar Jónsson segir að það hefði verið alger óþarfi að hleypa spennu í leik sinna manna í Fram gegn Haukum á Ásvöllum í dag.

Fram vann í dag Hauka í N1-deild kvenna, 27-24, í Hafnarfirði. Framarar náðu ágætu forskoti í síðari hálfleik en Haukar náðu að minnka muninn í eitt mark þegar tvær mínútur voru eftir.

„Það var alger óþarfi að hleypa spennu í leikinn undir lokin. Við vorum hins vegar að gera of mörg mistök. En þrátt fyrir það vorum við betri allan leikinn. Varnarleikurinn var á löngum köflum góður og heilt yfir fannst mér sóknarleikurinn líka góður," sagði Einar.

„Mér finnst því úrslitin ekki gefa rétta mynd af leiknum og það er okkur sjálfum að kenna."

Hann sagði það mikilvægt að vinna leiki gegn hinum toppliðunum í deildinni.

„Við vorum búin að tapa fyrir Stjörnunni og þetta var því prófraun fyrir okkur upp á framhaldið að gera. Við stóðumst þetta próf og ætlum okkur að vera áfram í toppbaráttunni."

Stjarnan og Valur eru á toppi deildarinnar með tíu stig en Fram og Haukar koma þar á eftir.

„Stjarnan og Valur eru ekki með betra lið en Fram og Haukar," sagði Einar. „Mér finnst að við eigum að vera með besta liðið ef við erum í lagi og gerum hlutina almennilega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×