Innlent

Þrír unglingspiltar sýknaðir af ákæru um nauðgun

MYND/Ingólfur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag þrjá unglingspilta, fædda á árunum 1988 og 1989, af ákæru um að hafa nauðgað 16 ára stúlku í húsi í Reykjavík í febrúar í fyrra.

Fram kemur í dómnum að fólkið hafi allt verið í íbúðinni umrætt kvöld og að piltarnir þrír höfðu samræði við stúlkuna. Hún leitaði í kjölfarið á neyðarmótttöku slysadeildar vegna kynferðisbrota.

Ákæruvaldið byggði á því að piltarnir þrír hefðu neytt aðstöðu- og aflsmunar til að þröngva stúlkunni til samræðis. Drengirnir héldu því hins vegar fram að samfarirnar hefðu farið fram með samþykki stúlkunnar.

Alls voru fjórar skýrslur teknar af stúlkunni vegna málsins og segir í dómi að hún hafi verið reikul og í raun margsaga um veigamikil sönnunaratriði í málinu.

Segir enn fremur að án þess að dómurinn vilji halda því fram að ákærðu séu hlutlægt trúverðugir í frásögn sinni eða að stúlkan hafi á einhverjum tímapunkti sagt vísvitandi ósatt frá sé einsætt að reikull vitnisburður hennar, sem erfitt sé að henda reiður á, sé haldlítill gegn neitun ákærðu og nánast samhljóða frásögn þeirra um málsatvik. Þótti dómnum því slíkur vafi leika á sök mannanna að það þeir voru sýknaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×