Made in sveitin - Í nótt
Vísir frumsýnir hér glænýtt myndband við lagið Í nótt með hljómsveitinni Made in sveitin. Hreimur Örn Heimisson söngvari er forsprakki sveitarinnar. Myndbandið er framleiðsla beint frá býli, gert af Hreimi sjálfum og öðrum hljómsveitarmeðlimum. "Hér er meira lagt upp úr gleði en gæðum. Við felum það ekkert. Made in sveitin verður aldrei í háskerpu," segir Hreimur. Myndbandið var tekið í Þorlákshöfn á dögunum og tóku nemendur úr grunnskóla bæjarins meðal annars þátt í gerð þess. Í nótt er fyrsta lagið sem Made in sveitin sendir frá sér. Ásamt Hreimi skipa Róbert Dan, Árni Þór, Ívar og Jón Guðfinns sveitina.