Innlent

Sjálf­stæðis­menn í Reykja­nes­bæ velja sér odd­vita

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Í ljós kemur í kvöld hver þessara mun leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ.
Í ljós kemur í kvöld hver þessara mun leiða lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Vísir/Samsett

Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ kjósa sér oddvita í dag. Margrét Sanders sitjandi oddviti gefur ekki kost að sér áfram en valið stendur á milli þriggja.

Það eru þeir Ásgeir Elvar Garðarsson, Unnar Stefán Sigurðsson og Vilhjálmur Árnason. Sá síðastnefndi hefur setið á Alþingi fyrir flokkinn í rúman áratug en hyggst nú söðla um sig í sveitarstjórnarmálunum.

Alls konar oddvitaefni

Ásgeir Elvar Garðarsson er framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis. Hann er menntaður viðskiptafræðingur og segist boða breytta nálgun á stjórnmálin í Reykjanesbæ.

Unnar Stefán Sigurðsson er skólastjóri í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ. Fyrir það var hann aðstoðarskólastjóri í Holtaskóla. Hann er menntaður smiður, rafvirki, lögreglumaður og er auk þess með BA-próf í guð- og miðaldafræði. Hann er einnig með meistaragráðu í mannauðsstjórnun sem hann lauk árið 2023.

Vilhjálmur Árnason hefur sem fyrr segir setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðastliðin tólf ár. Síðustu fjögur ár hefur hann verið ritari flokksins. Hann hefur einnig starfað sem lögreglumaður

Sjálfstæðisflokkurinn er í minnihluta í bæjarstjórn í Reykjanesbæ. Meirihlutann skipa Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Bein leið.

Mosfellingar velja í einnig

Klukkan þrjú í dag höfðu 1179 manns greitt atkvæði sem jafngildir 33 prósenta kjörsókn. Kosið er í Réttinum á Hafnargötu og lokar kjörstaður klukkan átta í kvöld.

Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ eru sömuleiðis með prófkjör í dag. Þar eru þrettán í framboði en kosið er um átta efstu sætin. Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings er sá eini sem sækist eftir oddvitasætinu.

Klukkan þrjú síðdegis höfðu 606 greitt atkvæði sem jafngildir 28,5 prósenta kjörsókn. Kosið er í Kjarna og stóð prófkjörið til klukkan sex í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×