Skoðun

Hruna­manna­hreppur 5 - Kópa­vogur 0

Gunnar Gylfason skrifar

Í fótbolta væru þessar tölur sláandi, að sveitarfélag sem telur rétt um 900 íbúa ynni næst stærsta sveitarfélag landsins með rúmlega 40.000 íbúa sannfærandi. En þetta er ekki fótbolti heldur tölur yfir óhagnaðardrifnar leiguíbúðir sem eru í byggingu eða hafa verið byggðar í sveitarfélaginu. Í vor klárast bygging 5 leiguíbúða á vegum Bjargs íbúðafélag á Flúðum í Hrunamannahreppi en engin í Kópavogi. Og reyndar er það þannig að það hefur aldrei klárast nein óhagnaðardrifin íbúð í Kópavogi því engum lóðum hefur verið úthlutað til félaga sem byggja slíkar íbúðir, ekki til Bjargs, ekki til Félagsstofnunar stúdenta eða nokkurs annars félags og það er pólitísk ákvörðun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn að gera það ekki.

Útvista verkefninu til Reykjavíkur eða annara

Staðan er sú að það er hópur fólks og fjölskyldna sem eru í lægstu tekjuhópunum og þannig verður það sennilega alltaf og þessi hópur verður í vandræðum eða getur ómögulega keypt eða leigt á almennum markaði en þarf samt einhvers staðar að lifa og búa. Óhagnaðardrifin félög eru mikilvæg til að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Það að úthluta engum lóðum til þessara félaga er pólitísk ákvörðun, ákvörðum um að taka ekki þátt í því samfélagsverkefni að útvega öllum þak yfir höfuðið, ákvörðun um að þeir sem ekki hafa nægar tekjur skuli búa annars staðar en í Kópavogi, sennilega í Reykjavík þvi höfuðborgin, hinu megin við lækinn undir forystu Samfylkingarinnar, hefur svo sannarlega staðið við sitt þegar kemur að útvegun lóða fyrir íbúðafélög og hafa meira en þúsund íbúðir verið byggðar fyrir þennan hóp í Reykjavík. Meira að segja Garðabær hefur staðið sig betur en Kópavogur sem bara útvistar verkefninu annað.

Samfylkinginn vill breytingar

Samfylkingin í Kópavogi hefur árum saman talað fyrir því að bærinn úthluti lóðum fyrir óhagnaðardrifin félög en talað fyrir daufum eyrum meirihlutans sem eingöngu hugsar um að fá sem hæst verð fyrir lóðirnar og þannig útiloka stóran hóp fólks og fjölskyldna frá því að geta búið í Kópavogi. Eina leiðin til að breyta þessu er að mynda nýjan meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs eftir kosningarnar í vor með Samfylkinguna innanborðs og hefjast þá handa við að minnka muninn á milli Kópavogs og Hrunamannahrepps, það gerist ekki öðruvísi.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og frambjóðandi í flokksvali Samfylkingarinnar í Kópavogi 7. febrúar.




Skoðun

Sjá meira


×