Skoðun

Maðurinn sem ég kynntist í löggunni

Þuríður B. Ægisdóttir skrifar

Mín fyrstu kynni af Vilhjálmi Árnasyni, eða Villa, voru er við störfuðum saman í lögreglunni á Suðurnesjum um nokkurn tíma. Þegar maður vinnur með fólki við hin ýmsu verkefni innan lögreglunnar þá áttar maður sig á úr hverju fólk er gert. Vilhjálmur er öflugur, góður og sanngjarn leiðtogi sem getur sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn.

Það er dýrmætt í fari manns sem vonandi verður okkar næsti bæjarstjóri.

Næstkomandi laugardag, 31. janúar, veljum við sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ okkur oddvita til að leiða lista flokksins í komandi bæjarstjórnarkosningum. Það er styrkur að hafa val á milli þriggja öflugra frambjóðenda, en okkar ábyrgð er að velja þann einstakling sem best er í stakk búinn til að leiða listann okkar og vinna að hagsæld bæjarins okkar til framtíðar.

Þótt leiðir okkar Vilhjálms hafi síðar legið hvor í aðra áttina starfslega höfum við alltaf haldið tengslum í gegnum félagsstarf Sjálfstæðisflokksins. Sjálf hef ég undanfarin ár verið formaður fagfélags ökukennara, sem kallar oft á flókin samskipti við hið opinbera. Í þeim samskiptum hefur Vilhjálmur reynst ómetanlegur.

Hjá honum hef ég ávallt fundið fyrir raunverulegum vilja til að hlusta, útskýra og leiðbeina – ekki bara í orði heldur ekki síður í verki. Hann hefur verið boðinn og búinn að ræða málin, greina hvaða leiðir innan kerfisins eru raunhæfar og hvernig best er að koma sjónarmiðum fólks á framfæri þannig að þau fái brautargengi.

Slík yfirsýn yfir hið opinbera kerfi, ásamt skilningi á því hvernig leysa á flókin mál í samstarfi við ólíka aðila, er fágæt. Enn sjaldgæfara er að finna einstakling sem sameinar þessa yfirsýn við gott tengslanet og hæfileika til að vinna þvert á flokka og ólíkar skoðanir.

Akkúrat þannig leiðtoga þurfum við í Reykjanesbæ.

Þess vegna mun ég kjósa Vilhjálm Árnason í oddvitastöðu Sjálfstæðisflokksins á laugardaginn kemur og hvet aðra sjálfstæðismenn til að gera slíkt hið sama.

Höfundur er formaður Ökukennarafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×