Innlent

Karlarnir leiða að ósk kvennanna

Lovísa Arnardóttir skrifar
Baldur Borgþórsson, til vinstri, og Sigfús Aðalsteinsson, til hægri.
Baldur Borgþórsson, til vinstri, og Sigfús Aðalsteinsson, til hægri. Bylgjan

Sigfús Aðalsteinsson fasteignasali leiðir lista Betri borgar – Þvert á flokka í sveitarstjórnarkosningum í vor. Baldur Borgþórsson mun skipa annað sæti listans. Tilkynnt var um framboðið í október í fyrra. Hlynur Áskelsson, kennari í Fjölbrautaskólanum í Ármúla, tekur þriðja sæti á listanum. Sigfús og Baldur voru til viðtals um væntanlegt framboð í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Þeir segja konur á neðri sætum listans en „að þeim ólöstuðum“ hafi þeir ákveðið að skipa karla í þrjú efstu sætin. Það hafi verið að ósk kvennanna að þeir skipi efstu sætin.

„Því að við teljum okkur vita talsvert mikið um þessi mál. Konur og menn, það skiptir ekki máli hvað kynið er, ef menn eru til þess búnir að gera hlutina. Mig langar að taka það mjög hratt fram. Við Baldur, við þurfum ekki vinnu. Við höfum vinnu en við gerum þetta virkilega af ástríðu,“ sögðu þeir í Bítinu og að það væri fjöldi kvenna með á listanum.

Ekki annað hægt en að stofna nýjan flokk

Sigfús var nokkuð áberandi í haust vegna umdeildra mótmæla sem hann stóð fyrir gegn útlendingastefnu stjórnvalda.

„Það var eiginlega ekkert annað hægt. Við báðir hérna, ég og Baldur að minnsta kosti, brennum fyrir málefnum borgarinnar eins og landsins. Við höfum nú aðeins verið að taka á málefnum landsins í gegnum tíðina, núna síðastliðna níu mánuði, og sáum okkur ekki fært annað en að reyna að byrja á borginni og þeim vandamálum sem þar eru. Og til þess þurftum við bara að stofna nýjan flokk vegna þess að hvar sem við leituðum með þær skoðanir sem við höfum, við fengum engin svör,“ sagði Sigfús í Bítinu um það af hverju þeir ákváðu að stofna nýjan flokk.

Sjá einnig: Okkar borg – Þvert á flokka tekur slaginn í borginni

Baldur var varaborgarfulltrúi Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins frá 2018 til 2022. Árið 2021 hætti hann í Miðflokknum og gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Árið 2024 gekk hann svo til liðs við Lýðræðisflokkinn og var á lista hans fyrir Alþingiskosningarnar það árið.

Sigfús og Baldur fóru yfir stefnuskrá sína í Bítinu sem þeir segja í sjö punktum sem þeir kalla boðorðin sjö. Númer eitt eru hælisleitendamál en þeir segjast vilja segja upp öllum samningum borgarinnar vegna hælisleitenda. Það sé á ábyrgð ríkis að hugsa um þetta fólk en ekki sveitarfélagsins.

Hafna borgarlínu og kynjafræði

Önnur mál á stefnuskrá eru samgöngumál en þeir hafna alfarið borgarlínu og tilheyrandi vegatollum. Þá vilja þeir hafa frítt í Strætó.

Hvað varðar skipulagsmál eru þeir á móti þéttingu byggðar og vilja að hverri íbúð fylgi tvö bílastæði, eitt ofanjarðar og annað neðanjarðar. Þá tala þeir fyrir því að lækka vexti, allri kynjafræði í leik- og grunnskólum verði hætt og að börn innflytjenda fari í fornámsdeild til að læra íslensku áður en þau fara í almenna skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×