Innlent

Þing­fundi ekki frestað vegna handboltans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ísland var að jafna metin en eru manni færri næstu fimmtíu sekúndurnar,“ gæti einhver þingmaðurinn hvíslað að forseta þingsins í dag til að upplýsa um stöðu mála í leiknum gegn Sviss í Malmö.
„Ísland var að jafna metin en eru manni færri næstu fimmtíu sekúndurnar,“ gæti einhver þingmaðurinn hvíslað að forseta þingsins í dag til að upplýsa um stöðu mála í leiknum gegn Sviss í Malmö. Vísir/Vilhelm

Reikna má með því að framlegð á vinnustöðum landsins muni lækka verulega á þriðja tímanum í dag þegar flautað verður til leiks í viðureign Íslands og Sviss í milliriðli 2 á Evrópumótinu í handbolta.

Ísland getur stigið stórt skref í átt að undanúrslitum með sigri á Sviss. Andstæðingur situr á botni riðilsins en er sannarlega sýnd veiði og alls ekki gefin. Sviss hefur gefið öllum andstæðingum sínum leik og full ástæða til að hafa varann á.

Slegið verður í bjöllu Alþingis klukkan 13:30 í dag þegar þingfundur hefst. Fréttastofu lék forvitni á að vita hvernig þingstörfum yrði háttað klukkustund síðar þegar flautað verður til leiks í Malmö. Víst er að í þingliðinu eru fjölmargir áhugamenn um gengi íslenska landsliðsins.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, varð fyrir svörum og var svar hennar skýrt:

„Ég mun ekki gera tillögu um að fundum sé frestað vegna leikjanna,“ segir Þórunn og vísar til fyrirspurnar blaðamanns þar sem bent var á að Ísland mætir Slóveníu á morgun klukkan 14:30 en þingfundur er á dagskrá klukkan 15.

Líkt og landsleikurinn verður Alþingi í beinni útsendingu á Alþingisrásinni og verður fróðlegt að sjá hvort ekki verði einn eða tveir símar á borðum þar sem fylgst verður með gangi okkar manna.

Hér má fylgjast með beinni textalýsingu frá leiknum á Vísi en upphitun er þegar hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×