Handbolti

Holur hljómur í gagn­rýni Dana á Guð­mund eftir á­kvörðun dagsins

Aron Guðmundsson skrifar
Nicolaj Jacobsen, núverandi landsliðsþjálfari Danmerkur hefur ákveðið að aflýsa æfingu liðsins í dag fyrir mikilvægan leik gegn Frökkum í milliriðli á EM á morgun.
Nicolaj Jacobsen, núverandi landsliðsþjálfari Danmerkur hefur ákveðið að aflýsa æfingu liðsins í dag fyrir mikilvægan leik gegn Frökkum í milliriðli á EM á morgun. Vísir/Samsett

Eftir að hafa gagn­rýnt áherslu Guð­mundar Guð­munds­sonar, fyrr­verandi lands­liðsþjálfara Dan­merkur, á vídjófundi og sagt um menningar­mun á að­ferðum hafi verið að ræða, hafa Danir í dag hætt við æfingu fyrir mikilvægan leik á EM gegn Frökkum á morgun til þess að horfa á fleiri upp­tökur af leikjum sínum og Frakka.

Nicolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari danska landsliðsins greindi frá því í samtali við TV 2 að liðið myndi ekki æfa í dag, degi eftir þungt tap gegn Portúgal sem sér til þess að Danir fara áfram án stiga í milliriðla mótsins.

Ástæðan sé sú að danska landsliðið þurfi að rýna betur í upptökur frá tapleik gærkvöldsins sem og leiki ríkjandi Evrópumeistara Frakka sem Danir mæta í fyrstu umferð milliriðils eitt á morgun. 

Hjákátlegt mjög ef tekið er mið af umræðum í heimildarmynd sem var framleidd af EHF og innihélt margar af stjörnum danska landsliðsins, núverandi og fyrrverandi, leikmenn og þjálfara þar sem farið var yfir uppgang og sigursæla tíma liðsins. 

Aðferðir Guðmundar Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara danska landsliðsins, sem stýrði liðinu til sigurs á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 voru þar gagnrýndar. Þar á meðal áhersla hans á að fara yfir málin á vídjófundum með leikmönnum sínum.

Í heimildarmyndinni, sem Guðmundi var ekki boðið að taka þátt í og hann lýsti furðu sinni á í viðtali við TV 2, sagði Ulrik Wilbek, fyrrverandi íþróttastjóri danska sambandsins, að hann hafi ekki fyrirséð þann menningarmun sem var á hugmyndafræði Guðmundar og þeirri sem hafði verið við lýði hjá danska landsliðinu áður tengt vídjófundum.

Menningarmunurinn virðist ekki meiri en svo að Danir eru farnir að sleppa æfingum fyrir vídjófundi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×