Innlent

Ríkið sak­fellt í einu máli en sýknað í öðru

Lovísa Arnardóttir skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg í Frakklandi.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strasbourg í Frakklandi. EPA

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að því að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt vegna þess að aðeins var litið til ásetnings en ekki samþykkis við rannsókn kynferðisbrotamáls árið 2017. Þolandi var 17 ára þegar brotið átti  sér stað. Málið er eitt af níu sem dómstóllinn er að taka til skoðunar og varðar allt mál sem felld voru niður við rannsókn hjá lögreglunni. 

Mannréttindadómstóllinn birti í morgun niðurstöðu sína í tveimur málum. Í þessum málum voru tekin til skoðunar fimm mál sem voru felld niður, í þremur þeirra voru þolendur undir lögaldri, börn, þegar málin áttu sér stað á árunum 2012 til 2019. Þau vörðuðu öll kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynferðislega áreitni. Málin voru lögð fyrir dómstólinn með aðstoð og aðkomu Stígamóta árið 2021. 

Niðurstaða Mannréttindadómstólsins er að engin kerfisbundin hlutdrægni eða mismunun hafi verið við meðferð tveggja mála er varða kynferðisofbeldi en að ríkið hafi gerst brotlegt þegar litið var til ásetnings frekar en samþykkis í einu málinu. 

Í umfjöllun dómsins segir að kærendur hafi byggt málatilbúnað sinn aðallega á 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð) og 8. gr. (réttur til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu). Mannréttindasáttmála Evrópu, bæði einum sér og í tengslum við 14. gr. (bann við mismunun), og halda því fram að um kynbundna mismunun hafi verið að ræða við meðferð slíkra mála og að íslenskum yfirvöldum hafi mistekist að framkvæma skilvirka rannsókn á kvörtunum þeirra.

Aðeins litið til ásetnings

Í máli Z gegn Íslandi, sem varðaði rannsókn á kæru Z um að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti á útihátíð þegar hún var 16 ára. Mannréttindadómstóllinn komst einróma að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn 8. grein Mannréttindasáttmálans, en ekki gegn 14. grein. 

Fjórir kærendur

Í hinu málinu, R.E. og fleiri gegn Íslandi, sem varðaði rannsóknir á kærum fjögurra kærenda vegna kynferðisofbeldis á árunum 2012 til 2017, en tveir þeirra voru undir lögaldri, komst Mannréttindadómstóll Evrópu einróma að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn 3. gr. (bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð) og 8. gr. (réttur til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu) Mannréttindasáttmála Evrópu, og ekki hefði verið brotið gegn 14. gr. (bann við mismunun) ásamt 3. og 8. gr.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að innlend löggjöf veitti fullnægjandi vernd gegn kynferðis og að löggjöfin hefði frá árinu 2007 tekið mið af því að gefa þurfi samþykki og að það sé kynferðisofbeldi sé eitthvað kynferðislegt gert við manneskju án hennar samþykkis. Í dómi kemur fram að dómstólinn hafi viðurkennt tafir í tveimur af fjórum málum áður en sakborningar voru yfirheyrðir, komst hann að þeirri niðurstöðu að rannsóknirnar í heild sinni hefðu uppfyllt þær kröfur um skilvirkni sem sáttmálinn gerir.

Yfirvöld hafi aflað læknisfræðilegra, sálfræðilegra og skriflegra gagna þar sem þau voru tiltæk, höfðu yfirheyrt kærendur, sakborninga og viðeigandi vitni og höfðu farið ítarlega yfir öll gögn.

Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×