Upp­gjörið: Stjarnan - KR 98-96 | Stjarnan vann eftir há­spennu

Hjörvar Ólafsson skrifar
Seth Christian Leday tryggði Stjörnunni dramatískan sigur. 
Seth Christian Leday tryggði Stjörnunni dramatískan sigur.  Vísir/Ernir

Seth Christian Leday sá til þess að Stjarnan fór með 98-96 sigur af hólmi í hörkuspennandi leik liðanna í 12. umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í ÞG Verk-höllinni í Ásgarði í Garðabænum í kvöld.

Seth  Leday blakaði boltanum ofan í körfuna þegar um það bil sekúnda var eftir af leiknum og sú karfa tryggði heimamönnum sigurinn. Toms Leimanis, nýr leikmaður KR-liðsins, fékk erfitt færi til þess að hrifsa stigin tvö í Vesturbæinn en skotiið geigaði og Stjörnumenn fögnuðu sigri. 

Toms Leimanis átti fína frumraun fyrir KR en hann skoraði 15 stig í sínum fyrsta leik í KR-búningnum. Vísir/Ernir

Stjarnan hafði frumkvæðið í þessum leik frá upphafi til loka þriðja leikhluta. Stjarnan hófst handa við að byggja upp forskot sitt og var15-6 yfir þegar fyrsti leiklhuti var hálnfaður.

Heimamenn skoruðu svo 11 stig í röð í byrjun annars leikhluta og komust 16 stigum yfir, 43-27. KR-ingar klóruðu í bakkann fyrir lok fyrri hálfleiks og Stjarnan fór með átta stiga forystu, 51-43, inn í hálfleikinn.

Ægir Þór Steinarsson skilaði 22 stigum fyrir Stjörnuna og gaf þar að auki tíu stoðsendingar. Vísir/Stjarnan

KR náði góðum endaspretti í lok þriðja leikhluta og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson kom gestunum yfir í fyrsta skipti í leiknum með þriggja stiga körfu sinni þegar skammt var eftir af leikhlutanum. KR-ingar voru 71-73 yfir fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Liðin skiptust á að leiða í fjórða leikhluta og úrslitin réðust á lokaandartökum leiksins. Linards Jaunzems jafnaði metin, 96-96, eftir gott innkastkerfi KR þegar rúmar fimm sekúndur voru eftir af leiknum. 

Giannis Agravanis skorði 14 stig í leiknum og hirti níu fráköst. Vísir/Ernir

Ægir Þór Steinarsson sótti að körfu KR í lokasökn Störnunnar en skot hans fór á hringinn. Seth Leday, sem hafði verið drjúgur í fráköstum í leiknum, tók sitt 13. frákast í leiknum og setti boltann ofan í . 

Toms Leimanis fékk tækifæri til þess að stimpla sig inn í KR-liðið og snúa taflinnu gestunum í vil en erfitt skot hans geigaði og Stjarnan hafði þar af leiðandi betur. Stjarnan er í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig eftir þennan sigur. KR og Álftanes koma þar á eftir með 10 stig hvort lið. 

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, gefur leikmönnum sínum skipanir. Vísir/Ernir

Baldur Þór: Varnarleikur beggja liða slakur

„Það er kærkomið að landa sigri og byrja nýja árið á því að ná í tvö stig. Frammistaðan í þessum leik var fín en við þurfum að gera mun betur á varnarhelmingnum. Mér fannst varnarleikur beggja liða slakur í þessum leik,“ Baldur Þór Ragnarsson, sagði þjálfari Stjörnunnar, að leik loknum.

„Við byrjuðum leikinn af krafti en þeir áttu auðvelt með að skora í þriðja leikhluta. Nýji leikmaðurinn þeirra er augljóslega með gæði og hann og aðrir leikmenn KR-liðsins sýndu hvers megnugir þeir eru þegar líða tók á leikinn,“ sagði Baldur Þór enn fremur. 

„Lokamínúturnar tóku vissulega á taugarnar og það var frábært að við náðum að kreista fram sigur. Seth var öflugur í þessum leik og reyndist gulls ígildi á ögurstundu,“ sagði hann. 

„Eins og ég sagði áðan er ég ekki ánægður með varnarleikinn í þessum leik og við munum leggja áherslu á þann hluta leiksins á æfingum fram að næsta leik. Við getum gert munum á þeim vettvangi,“ sagði Baldur um framhaldið. 

Jakob: Frákastabaráttan varð okkur að falli

„Við vorum allt of passívir í okkar aðgerðum á báðum endum vallarins í fyrri hálfleik. Við förum yfir það í gegnum fyrstu þrjá leikhlutana að við þyrftum að gera hlutina af meiri sannfæringu. Við hrukkum í gang í þriðja leikhluta og það er sárt að fá ekkert út úr leiknum eftir að hafa lagt á okkur svona miklu vinnu,“ sagði Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, eftir leik.

„Við vorum í vandræðum með fráköst allan leikinn, einkum og sér í lagi með Seth. Það var svo að lokum sóknarfrákast hjá Seth sem fer með okkur og tryggir þeim sigur. Það er blóðugt að þeir fái tvo sjénsa í lokasókn sinni og við hefðum að frákasta betur þar og allan leikinn raunar,“ sagði Jakob þar að auki. 

„Það er margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessum leik. Sóknarleikurinn var heilt yfir góður og við náðum upp fínum varnarleik á köflum í seinni hálfleik. Við vildum hins vegar sigur eins og í öllum leikjum sem við spilum og förum því hundsvekktir héðan,“ sagði hann. 

Jakob var ánægður með nýjasta liðsmann KR-liðins, Toms Leimanis, og væntir mikils af honum það sem eftir lifir tímabils: „Toms spilaði bara vel og skilaði góðu framlagi. Hann er búinn að mæta á tvær æfingar með okkur og sýndi það strax í fyrsta leik að þetta er leikmaður í háum gæðaflokki. Honum líður vel með boltann, er með gott skot og gefur okkur aukna vídd í sóknarleikinn. Við væntum þess að hann bæti liðið töluvert enda ferilskráin þannig að um er að ræða gæðaleikmann,“ sagði Jakob um Lettann. 

Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, fer yfir málin með leikmönnum sínum. Vísir/Ernir

Atvik leiksins

Spennan varð gríðarleg og Stjörnumenn fögnuðu eðlilega vel og innilega þegar Seth var búinn að koma liðinu yfir og Toms náði ekki að svara á hinum enda vallarins. Þetta var skemmtilegur körfuboltaleikur þar sem þeir sem lögðu leið sína í Ásgarð fengu ýmislegt fyrir peninginn. 

Stjörnur og skúrkar

Seth Leday var stigahæstur á vellinum með 26 stig og skoraði auk þess sigurkörfuna í leiknum. Þar fyrir utan gerði Seth KR-ingum lífið leitt í baráttunni um fráköst en hann reif niður 13 slík að þessu sinni. 

Ægir Þór Steinarsson setti svo niður 22 stig og mataði samherja sína með tíu stoðsendingum. Luka Gasic og Giannis Agravanis áttu einnig góðan leik fyrir Stjörnuna. 

Kenneth Jamar Doucet Jr dró vagninn í sóknarleik KR en hann skoraði 25 stig og setti niður mikilvægt þriggja stiga skot undir lok leiksins. Kenneth átti kaflaskiptar frammistöður fyrir áramót en var stöðugur í spilamennsku sinni í þessum leik. 

Toms Leimanis er leikmaður sem virðist muna verða máttarstólpi hjá KR-liðinu. Linards Jaunzems óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var flottur. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Gunnlaugur Briem, Birgir Orn Hjörvarsson og Bjarni Rúnar Lárusson, stígu fá sem engin stór feilspor í þessum leik og héldu tempóinu háu sem var vel að verki staðið. Þeir fá þar af leiðandi átta í einkunn fyrir vel unnin störf. 

Stemming og umgjörð

Fínasta mæting í Ásgarð og stemmingn bara býsna góð í kvöld. Bæði lið fengu hressilega hvatningu og stuðning en meira fór fyrir stuðningsmannasveit Stjörnunnar sem var fjölmennari og vopnuð vaskri trommusveit. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira