Erlent

Í varð­haldi í Þýska­landi vegna Nord Stream-skemmdar­verka

Kjartan Kjartansson skrifar
Gas vellur upp á yfirborðið frá Nord Stream-gasleiðslunum í Eystrasalti í september árið 2022.
Gas vellur upp á yfirborðið frá Nord Stream-gasleiðslunum í Eystrasalti í september árið 2022. AP/sænska landhelgisgæslan

Yfirvöld í Þýskalandi handtóku í dag Úkraínumann sem er grunaður um að hafa sprengt Nord Stream-gasleiðslurnar í Eystrasalti í sundur árið 2022. Maðurinn var framseldur frá Ítalíu þar sem hann var handtekinn í sumar.

Serhii Kuznietsov, 49 ára gamall Úkraínumaður, var úrskurðaður í gæsluvarðhald í Karlsruhe í Þýskalandi. Hann er talinn hafa verið í áhöfn lítillar skútu sem kom fyrir sprengjum  á gasleiðslunum í september fyrir þremur árum, rúmu hálfu ári eftir að allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu hófst. 

Þýsk yfirvöld grunar að Kuznietsov hafi skipulagt skemmdarverkin. Hann er sakaður um skemmdarverk og eignaspjöll. Kuznietsov neitar sök og segist hafa verið við herskyldu í heimalandinu þegar sprengingarnar urðu.

Ítalskur dómstóll samþykkti framsal Kuznietsov til Þ'yskalands í síðustu viku. Hann var handtekinn við sólarstaðinn Rimini þar sem hann var í fríi með fjölskyldu sinni í ágúst.

Annar maður sem er grunaður um aðild að skemmdarverkunum vann dómsmál til þess að forðast framsal í Póllandi í síðasta mánuði. Dómari þar féllst á þau rök að gasleiðslurnar hefðu verið lögmæt hernaðarleg skotmörk og því gæti einstaklingur ekki verið dreginn til saka fyrir skemmdarverkin.

Einn stærsti metanleki í sögunni

Nord Stream-gasleiðslurnar tvær voru byggðar til þess að flytja jarðgas frá Rússlandi til Þýskalands. Rússar höfðu þegar skrúfað fyrir gasið í eldri leiðslunni í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu þegar skemmdarverkin voru unnin. Seinni leiðslan hafði enn ekki verið tekin í notkun.

Sprengingarnar ollu umfangsmesta metanleka sem sögur fara af þegar gas úr leiðslunum vall upp úr sjónum og í andrúmsloftið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×