Handbolti

„Á­gætt að byrja á þessu og blóðga liðið“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnar Pétursson tekur margt jákvætt með sér úr opnunarleiknum. 
Arnar Pétursson tekur margt jákvætt með sér úr opnunarleiknum.  Getty/Marco Wolf

Landsliðsþjálfarinn Arnar Pétursson var ánægður með margt í leik íslenska liðsins, sem tapaði 32-25 gegn Þýskalandi í opnunarleik HM.

„Mér fannst frammistaðan mjög góð, heilt yfir. Ég er ánægður með það sem við sýndum hérna í dag og hugarfarið í liðinu. Smá kaflar auðvitað þar sem við getum gert betur, en heilt yfir er ég mjög ánægður“ sagði þjálfarinn skömmu eftir leik.

Margt hefði þó mátt betur fara, enda sjö marka tap niðurstaðan.

„Ekkert sem ég er sérlega ósáttur við, en við erum að tapa of mörgum boltum og á móti svona sterkum liðum er okkur bara refsað með hröðum upphlaupum. Við fengum að kynnast því aðeins í fyrri hálfleik.“

Níu íslenskir leikmenn spiluðu á HM í fyrsta sinn í kvöld og sex þeirra voru að spila á stórmóti í fyrsta sinn.

„Þær eru að spila fyrir framan fullt hús við geysisterkt lið og eru bara heilt yfir að klára það verkefni mjög vel. Það er það sem ég kallaði eftir fyrir leik, það var frammistaða og við fengum hana, en við getum líka lært helling og munum gera það.“

Skammur tími er til stefnu fram að næsta leik, Ísland mætir Serbíu á föstudagskvöld.

„Það var ágætt að byrja á þessu og blóðga liðið, núna þurfum við að fara strax að huga að næsta leik. Við þurfum að endurheimta vel og safna orku. Við mætum öðru þungu liði á föstudaginn og verðum að vera klárir í aðra eins baráttu.“

Klippa: Arnar ánægður þrátt fyrir tap



Fleiri fréttir

Sjá meira


×