Skoðun

Já­kvæð á­hrif milli­landa­flugs til Akur­eyrar eru miklu meiri en þú heldur

Lára Halldóra Eiríksdóttir skrifar

Öflugt millilandaflug til Akureyrar er ekki gæluverkefni heldur drifkraftur sem skapar tækifæri og beinan efnahagslegan, samfélagslegan og umhverfislegan ávinning fyrir landið allt.

Flug sem skapar verðmæti

Ef Ísland ætlar að byggja upp fjölbreyttara, sjálfbærara og sterkara efnahagslíf, þarf landið að nýta alla sína styrkleika. Norðurland sem atvinnusvæði hefur verið í sókn. Millilandaflug um Akureyri er eitt þeirra verkefna sem getur stutt við hana, umbreytt ferðamennsku, atvinnulífi og byggð í senn – og styrkt stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Það er hlutverk sem þjónar ekki aðeins Norðurlandi – heldur Íslandi öllu.

Nýleg skýrsla Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sýnir að beint millilandaflug til Akureyrar stuðlar nú þegar að betri dreifingu ferðamanna um landið og styrkir ferðaþjónustu utan suðvesturhornsins. Þetta staðfestir reynslan af vetrarflugi easyJet 2023–2024, en ferðafólk sem nýtti sér þá flugið eyddi um 1,2 milljörðum króna á svæðinu – á rólegasta tíma ársins. Áhrifin ná líka langt út fyrir ferðaþjónustuna. Flugið skapaði tugi milljóna í skatttekjur til sveitarfélaga og ríkissjóðs og stuðlaði að auknum stöðugleika í atvinnulífi á Norðurlandi.

Akureyri tengir Ísland betur við umheiminn

Góðar tengingar við umheiminn eru auk þess forsenda að svæði séu samkeppnishæf um uppbyggingu og mannauð.

Beinar flugtengingar laða að erlenda fjárfestingu, ný störf og hátækniverkefni – ekki síst þar sem þörf er á erlendum sérfræðingum og greiðu aðgengi að alþjóðamörkuðum. Millilandaflugið er því ekki aðeins mikilvægt fyrir ferðaþjónustu á öllu norðanverðu landinu, heldur sömuleiðis fyrir orkuiðnað, sjávarútveg, nýsköpun og menntun svo nokkuð sé nefnt. Með öflugum tengingum eykst bæði byggðafesta og möguleikar atvinnulífsins að norðan – og um leið styrkist íslenskt efnahagslíf í heild.

Ég ætla því að leyfa mér að fullyrða að með eflingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll eykst samkeppnishæfni Íslands í heild.

Tími til að hugsa stórt

Haustþing Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), sem haldið var í október síðastliðnum, hvatti í ályktun sinni stjórnvöld til að efla flugþróunarsjóð, styrkja innviði Akureyrarflugvallar og setja á fót sérstaka stjórn fyrir flugvöllinn. Slík stjórn gæti mótað framtíðarstefnu, tryggt samkeppnishæfni, samhæft uppbyggingu og haft leiðandi hlutverk í markaðssetningu flugsins í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands og Íslandsstofu.

Tryggt millilandaflug er ekki kostnaður heldur fjárfesting í uppbyggingu, samkeppnishæfni og fleiri tækifærum. Til þess þarf fyrirsjáanleika og sameiginlegan vilja. Það er kominn tími til að líta á Akureyri sem það sem hún í raun er – aðra gátt inn í landið.

Höfundur er formaður stjórnar SSNE og bæjarfulltrúi Akureyrarbæjar.




Skoðun

Sjá meira


×