Handbolti

„Þeirra helsti veik­leiki“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Díana Dögg þekkir þýskan handbolta betur en flestar í liðinu.
Díana Dögg þekkir þýskan handbolta betur en flestar í liðinu. Vísir/Hulda Margrét

„Þjóðverjarnir eru rosalega sterkir“ segir Díana Dögg Magnúsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, fyrir opnunarleik liðanna. Veikleika má þó finna á þýska liðinu.

Díana hefur spilað í þýsku úrvalsdeildinni undanfarin sex ár og þekkir vel til andstæðingsins.

„Ég er búinn að spila við þær allflestar og þær eru ótrúlega sterkar maður á mann. Líkamlega eru þær mjög sterkar og þær vilja keyra, og keyra mikið, en það eru alveg nokkrar stöður hjá þeim varnarlega sem eru brothættar.

Við þurfum að nýta okkur það og reyna að keyra á þær þegar þær ná ekki að skipta. Þegar þær spila með línumann vilja þær skipta honum út, þá þurfum við að geta keyrt í bakið á þeim. Það er þeirra helsti veikleiki og svo eru nokkrir bakverðir sem eru kannski ekki bestu varnarmennirnir, en þær eru með hörkulið.“

„Maður á mann…í nánast heilan leik“

Þetta línumannaleysi sem Díana talar um er algengt í þýsku úrvalsdeildinni og hjá bæði kvenna- og karlalandsliði Þýskalands, en hvernig svarar íslenska vörnin því?

„Þegar það er verið að spila án línumanns, þá er þetta bara maður á mann fyrir okkur varnarlega. Ég held að við séum flestar vanar því að einhverju leiti, á æfingum og svona, en þetta verður þannig í nánast heilan leik. Það er gaman að takast á við það en við verðum að vera þéttar fyrir.“

Ekki yfir neinu að kvarta í Blomberg

Rétt fyrir HM skrifaði Díana undir framlengingu á samningi við þýska liðið Blomberg/Lippe, enda líkar henni lífið í Þýskalandi afar vel.

„Mér finnst frábært að vera í Þýskalandi og Blomberg er flottur klúbbur, þarna hjá toppnum og þá hef ég ekki yfir neinu að kvarta“ sagði Díana en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: Díana þekkir Þjóðverjana út og inn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×