Innlent

Brúðkaupsferðin til Ís­lands reyndist sú síðasta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stewart Gordon var vel þekktur dyravörður í Sheffield.
Stewart Gordon var vel þekktur dyravörður í Sheffield.

Fjölskylda og vinir fimmtugs bresks karlmanns sem lést í brúðkaupsferð sinni til Íslands í október safna fyrir jarðarför hans sem fer fram eftir viku. Bretinn var kallaður Víkingurinn.

Karlmaðurinn heitir Stewart Gordon en fjallað er um andlát hans og söfnunina á Manchester Evening News. Hann starfaði sem dyravörður á næturklúbbum í Sheffield og virðist hafa verið vel liðinn. Ýmist gengið undir viðurnefnunum „góði risinn“ eða „víkingurinn“.

Stewart var í brúðkaupsferð með eiginkonu sinni Abi þegar hann lést þann 28. október síðastliðinn. Á fimmta þúsund pund hafa safnast eða sem nemur um 750 þúsund krónum.

Ýmsir hafa minnst Stewart á samfélagsmiðlum þar sem hann er sagður hafa verið með hjarta úr gulli og einn minnist hans sem goðsagnar.

„Þau sem þekktu Stewart minnast hans mikla hláturs, húmorsins og hvernig hann færði fólki hlýju og hlátur hvert sem hann fór.“

Efnt hafi verið til söfnunarinnar til að styðja fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum og skipuleggja þá kveðjustund sem Stewart eigi skilið.

Ekki kemur fram hvernig andlát Stewarts bar að. Þann 28. október lést erlendur karlmaður í Bláa lóninu. Fréttastofa hefur ekki fengið staðfest hvort um sama andlát sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×