Erlent

Telja að lestar­teinar hafi verið sprengdir viljandi í Pól­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, (2.f.h.) í vettvangsferð þar sem skemmdarverk voru unnin á lestarteinum við bæinn Mika í suðaustanverðu landinu um helgina.
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, (2.f.h.) í vettvangsferð þar sem skemmdarverk voru unnin á lestarteinum við bæinn Mika í suðaustanverðu landinu um helgina. AP/KPRM

Pólsk stjórnvöld fullyrða að vísvitandi skemmdarverk hafi átt sér stað um helgina þegar sprenging eyðilagði lestarteina sem tengja Varsjá og Lublin. Engan sakaði í sprengingunni.

Lestarstjóri farþegalestar tilkynnti um að teinar væru skemmdir við þorpið Mika, um hundrað kílómetra suðaustur af Varsjá, í gærmorgun. Frekari skemmdur fundust á öðrum stað á leiðinni. 

Tveir farþegar og nokkrir starfsmenn voru um borð í lestinni en engan sakaði, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Versti ótti okkar er staðfestur, því miður. Skemmdarverk voru framin á Varsjá-Lublin línunni. Sprenging skemmdi lestarteinana,“ sagði Donald Tusk, forsætisráðherra, í yfirlýsingu í morgun.

Hét Tusk því að yfirvöld hefðu hendur í hári skemmdarvarganna hverjir sem þeir væru. Lýsti hann skemmdarverkunum sem fordæmalausum.

Tugir manna hafa verið handteknir vegna gruns um skemmdarverk og njósnir frá því að allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×