Erlent

Bretlandsher að­stoðar Belga vegna drónaflugs

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Alþjóðaflugvellinum í Brussel var lokað á þriðjudagskvöld vegna drónaumferðar. 
Alþjóðaflugvellinum í Brussel var lokað á þriðjudagskvöld vegna drónaumferðar.  EPA

Bretar hafa orðið við aðstoðarbeiðni Belga eftir að drónar flugu inn í landhelgi Belgíu fyrr í vikunni. Sérfræðingar og búnaður frá breska flughernum eru á leið til landsins. 

Belgar kölluðu saman þjóðaröryggisráð fyrr í vikunni vegna drónaflugs við flugvelli í landinu. Töluvert rask varð á flugi til og frá Belgíu á þriðjudagskvöld vegna þessa og loka þurfti flugvellinum í Brussel um stund. 

Richard Knighton yfirmaður varnarmála í Bretlandi segir belgíska kollega sína hafa óskað eftir aðstoð fyrr í vikunni og að búnaður og mannskapur væri á leiðinni. 

Hann segist í samtali við blaðamann BBC ekki unnt að staðreyna hver beri ábyrgð á drónunum en leiða megi líkur að því að Rússlandsher standi að baki fluginu. Rússar hafa ekki gengist við ábyrgð á fluginu. 

John Healey varnarmálaráðherra Bretlands sagði í yfirlýsingu að Bretar muni ásamt öðrum NATO-ríkjum veita Belgum aðstoð í gegnum búnað og getu. Þjóðverjar og Frakkar hafa sömuleiðis boðið fram aðstoð sína.

Drónaflugið á þriðjudag er enn eitt dæmið um óvelkomna umferð loftfara í evrópskri lofthelgi undanfarnar vikur. Meðal annars hafa drónar sést í Tékklandi, Danmörku, Eistlandi, Þýskalandi, Póllandi, Noregi og á Spáni. Það eru ekki aðeins drónar sem hafa verið á sveimi í óleyfi, heldur einnig helíumblöðrur sem báru sígarettur, en evrópskir leiðtogar hafa sagt um fjölþáttaárásir að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×